144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[22:13]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hann kom ágætlega inn á það í ræðu sinni að utanríkisráðuneytið varð fyrir harkalegum niðurskurði í upphafi kjörtímabilsins. Sjálfsagt hefur hæstv. ráðherra ekkert verið mjög glaður með það og kannski hugsað um hvernig hægt væri að styrkja stöðu ráðuneytisins og séð kannski eitthvert gull í greip í þessu sambandi, að skoða möguleikann á því að fella Þróunarsamvinnustofnun undir ráðuneytið. Mig langar að heyra hjá hv. þingmanni hvort það sé kannski það sem liggur hér á bak við þegar upp er staðið, því að ekki er talað um að fækka eigi starfsfólki eða breyta starfseminni. Það er tekið fram, eins og vitnað hefur verið til, í frumvarpinu á bls. 8, að Þróunarsamvinnustofnun Íslands hafi unnið mjög gott starf á vettvangi þannig að eftir því hafi verið tekið og hafi margsannað sig í óháðum úttektum. Miðað við þær lýsingar ættu menn að slá skjaldborg um stofnunina og halda áfram að þróa hana á þeirri vegferð sem hún virðist vera á.

Mig langar líka að heyra í hv. þingmanni varðandi það að ef það gengur eftir að stofnunin falli undir ráðuneytið og verði bara einhver skúffa þar eða deild innan ráðuneytisins, hvað með að þetta verði allt á sömu hendi, stefnumótun, framkvæmd og eftirlit? Er það ekki óeðlilegt í stjórnsýslu í dag?