144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[22:22]
Horfa

Oddný G. Harðardóttir (Sf) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Það er ekki að undra þó að hv. þingmenn geri athugasemdir við það að stjórnarliðar skuli ekki taka þátt í þeim umræðum sem hér fara fram í dag. Það er, eins og fram hefur komið, ekki í fyrsta sinn sem stjórnarmeirihlutinn lætur ekki sjá sig í þingsalnum og stjórnarandstaðan ber uppi umræðuna og ræðir málin sem hæstv. ríkisstjórn leggur fram. (Gripið fram í: Ertu að meina …?) Stjórnarmeirihlutinn gerir það hins vegar ekki. Að manni læðist sá grunur að það sé ekki eining um málið og einmitt þess vegna komi enginn sjálfstæðismaður hingað og taki þátt í umræðunum. En við vitum það ekki vegna þess að þeir koma ekki til að taka þátt í umræðunum.