144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[22:29]
Horfa

Árni Páll Árnason (Sf) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil taka undir með þeim þingmönnum sem hafa gert athugasemdir við fjarveru þingmanna stjórnarmeirihlutans í salnum. Maður veltir fyrir sér hvort í því felist vantraust hins stjórnarflokksins á málið og skortur á stuðningi við það í Sjálfstæðisflokknum.

Ég rifjaði upp í ræðu minni í dag að ég átti um það mjög farsælt samstarf við þáverandi formann utanríkismálanefndar, hæstv. fjármálaráðherra Bjarna Benediktsson, árið 2008 að koma lögunum um þróunarsamvinnu í gegnum þingið með fullu samþykki allra flokka. Við sömdum við stjórnarandstöðuna um allar þær breytingar sem hún vildi gera á frumvarpinu til að tryggja atkvæði alls þingheims. Kann að vera að þetta mál sé einhver prívatför hæstv. ráðherra, eigi ekki stuðning í Sjálfstæðisflokknum og það skýri hina æpandi fjarveru sjálfstæðismanna í þingsal í kvöld? Mér finnst eðlilegt að við fáum svör um það. Málið er augljóslega ekki sett fram á þann hátt að einhver þingleg umræða eigi sér stað um það þegar enginn situr hér til andsvar í þingsalnum nema hæstv. ráðherra.