144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[22:31]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Herra forseti. Ég leita skýringa á þögn hv. þingmanna stjórnarflokkanna. Ég gleðst yfir því að sjá hv. formann utanríkismálanefndar kominn í salinn og það er vissulega rétt að við höfum séð bæði hann og hv. þm. Frosta Sigurjónsson í salnum í dag, en við höfum ekkert heyrt frá þeim um afstöðu þeirra til málsins.

Nú er það ekki svo að við getum knúið fram pólitíska ástríðu í hjörtum hv. þingmanna stjórnarmeirihlutans. Það er ekki vinnandi verk. En við getum gert þá kröfu þó að ástríðan sé kannski engin að þeir að minnsta kosti greini okkur frá afstöðu sinni, taki tillit til þeirra raka sem hafa verið lögð á borðið, röksemda og eigi við okkur samtal, jafnvel þótt það sé snautt ástríðu, sem það hlýtur að vera. Úr því að þeir finna ekki hjá sér neina þörf fyrir að koma upp og tjá sig um málin reikna ég með því að ekki logi mikill eldur í hjörtum þeirra og við getum ekki ætlast til þess. Við getum ekki ætlast til þess að eldur logi í hjörtum hv. þingmanna stjórnarmeirihlutans. Ég get ekki ætlast til þess. En ég get ætlast til þess að (Forseti hringir.) að þeir sýni okkur þá virðingu og kurteisi að eiga við okkur samtal um þetta mál.