144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[23:08]
Horfa

Valgerður Bjarnadóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég ætla að vona að málið sé ekki allt svo vitlaust og það hangi ekki einhvern veginn saman þótt ég skilji það ekki. Það er orðað svo að greinargerðin sé skrifuð í ráðuneytinu. Auðvitað er það svo, en það er náttúrlega ráðherrann sem ber ábyrgðina á greinargerðinni, það er engin spurning um það og það verður ekki sagt að virðulegir embættismenn beri ábyrgð á því. Ráðherrann ber ábyrgð á greinargerðinni. Einhver orðaði það þannig hér fyrr í dag að það vantaði rannsóknarspurninguna í frumvarpið og rökstuðning fyrir því af hverju við værum að þessu. Í þessu dæmi er kannski réttast að segja líklega fengi maður ekki mjög háa einkunn í meistaranámi fyrir að leggja málið svona fyrir. Það vantar rannsóknarspurninguna og öll greinargerðin í kring er til að pakka því máli inn, en það vantar líka rökstuðninginn fyrir því af hverju þetta er svona og af hverju loka þarf þessari stofnun. Þá spyr ég líka: Af hverju var hin leiðin ekki skoðuð ef það er betra að allt sé á sama stað? Af hverju var hin leiðin þá ekki líka skoðuð, þ.e. að fara með allt út úr ráðuneytinu og inn í stofnunina? Það er náttúrlega eðli nútímastjórnarhátta nú árið 2015 að fara með svona þætti út úr ráðuneytum frekar en inn í þau (Forseti hringir.) þó svo að deila megi um hvað ætti að fara út úr ráðuneytinu.