144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[23:10]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Maður er alltaf meira og meira undrandi yfir því, eftir að maður hlustar á málflutning hv. þingmanna hér sem margir hverjir eru vel að sér í þessum málaflokki og hafa fylgst með honum lengi, af hverju í ósköpunum hæstv. utanríkisráðherra velur það að leggja þessa góðu stofnun inn í utanríkisráðuneytið, stofnun sem fær í raun og veru fyrsta flokks einkunnir fyrir frammistöðu sína, árangur og fer vel með fé og allt mælir með því að hún sé fyrirmyndarstofnun innan íslenska stjórnkerfisins. Maður spyr: Hvað veldur? Það hefur komið fram að þessi ákvörðun hæstv. ráðherra byggist fyrst og fremst á skýrslunni sem unnin var fyrir ráðuneytið af Þóri Guðmundssyni. Það hefur líka komið fram að gerð var önnur úttekt á þessum málaflokki af Sigurbjörgu Sigurgeirsdóttur sem sneri á allt annan veg. Fyndist hv. þingmanni ekki að það hefði verið eðlilegt að við sem störfum hér á Alþingi hefðum haft einhverja aðkomu að málinu á fyrri stigum með einhvers konar skýrslu þar sem ólík sjónarmið væru reifuð í þessum efnum, og málið færi til fagnefndar, utanríkismálanefndar, og þingið fengi að hafa þverpólitískan aðgang að málinu áður en menn ganga svona langt og hafa í raun engan rökstuðning með málinu eins og mér finnst koma fram í frumvarpinu? (Forseti hringir.)