144. löggjafarþing — 84. fundur,  24. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[23:30]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum skýra og góða ræðu. Mig langar að spyrja hana út í aðkomu þingsins að málefnum þróunarsamvinnu. Það hefur verið rætt að mikilvægt sé að auka aðkomu þingsins. Ég vil ekki gera lítið úr því en það eru margir málaflokkar sem við fjöllum um hér og það er bein leið fyrir aðkomu þingsins að þróunarsamvinnu, bæði náttúrlega í gegnum fyrirspurnir og skýrslubeiðnir og inni í utanríkismálanefnd en ekki síst í gegnum þingsályktunartillögu um þróunarsamvinnu sem lögð er fram á þriggja ára fresti. Þingið er stefnumarkandi í þróunarsamvinnu, bæði í gegnum löggjöfina og í gegnum þingsályktun.

Hér er verið að leggja til að í stað þess að Alþingi kjósi fulltrúa í þróunarsamvinnunefnd eigi alþingismenn beinlínis að setjast í eitthvert ráð, þróunarsamvinnunefnd, með fulltrúum úr háskólasamfélaginu eða með rætur í háskólasamfélaginu, vinnumarkaðnum og borgarasamtökum og að sú nefnd eigi að hittast að minnsta kosti tvisvar á ári. Nú er það þannig að Samfylkingin hefur kosið fulltrúa í nefndina, fólk sem er talið vel til þess fallið að koma að vinnu í málaflokknum. Við höfum auðvitað gert eins og þingflokkar gera, kallað þá aðila til skrafs og ráðagerða, fengið upplýsingar og heyrt hvað er að gerast ef þörf er á, enda eru þeir fulltrúar kosnir á Alþingi. Telur þingmaðurinn að til þess að auka aðkomu þingmanna að málum þurfi að setja þá í sérstakar nefndir starfandi utan þings? Er þingið sjálft (Forseti hringir.) ekki nægilegur vettvangur fyrir aðkomu okkar að þessum málaflokki?