144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

störf þingsins.

[15:05]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Virðulegi forseti. Ég kem hér upp til að ræða störf Alþingis og lýsa verulegum áhyggjum af þeirri stöðu mála sem mér finnst vera uppi hvað varðar þingstörfin. Ég var hér á þingfundi í gærkvöldi að ræða þróunarsamvinnumál og frumvarp hæstv. utanríkisráðherra um að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun og færa starfsemi hennar inn í utanríkisráðuneytið. Hér tóku ítrekað til máls hv. þingmenn flokkanna sem skipa stjórnarandstöðu en hv. þingmenn stjórnarflokkanna tóku ekki til máls. Einhverjir þeirra voru við umræðuna en við fengum til að mynda ekkert að heyra frá þeim hv. þingmönnum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks sem skipa utanríkismálanefnd. Þeir höfðu ekki áhuga á að fara í andsvör við ræður okkar til að reyna að eiga samtal um málið, svara gagnrýni, rökum, velta upp spurningum.

Ég velti því fyrir mér, virðulegi forseti, í ljósi þess að Alþingi er ætlað að vera málstofa þar sem við eigum samtal, þar sem við væntanlega skiptumst á skoðunum til að færast nær einhverju markmiði. Við höfum gert það, við höfum oft gert það allt of seint í ferli máls og ég átta mig ekki á því ef menn líta svo á að 1. umr. um mál sé bara ekki til þess að ræða þau, til þess að fara ekki yfir þau. Ég man hreinlega ekki eftir því, til að mynda á síðasta kjörtímabili, að hafa mælt fyrir málum án þess að einhver samræða væri í gangi nema málin væru þeim mun óumdeildari. Það á ekki við um þetta mál.

Virðulegi forseti. Ég mælist nú til þess að þetta verði tekið upp í forsætisnefnd. Það er enginn bragur á því að Alþingi haldi fundi langt fram á kvöld þar sem þingmenn stjórnarandstöðunnar ræða málin sín í milli og umræðan við meiri hlutann hér í þinginu hefjist ekki fyrr en löngu seinna. Ég er ansi hrædd um að málin lendi einmitt oft í öngstræti af því að umræðan hefst ekki hjá stjórnarflokkunum fyrr en allt of seint í ferlinu. Ég lýsi því, virðulegi forseti, áhyggjum (Forseti hringir.) af stöðu þingsins og framtaksleysi þingmanna meiri hlutans hér í umræðum.