144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

störf þingsins.

[15:17]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg):

Herra forseti. Mér finnst mikilvægt, í ljósi þeirrar gleði sem ríkti hér hjá sumum framsóknarmönnum í gær, og sneri að skuldaniðurgreiðslunni, að við höldum því til haga að hún var sett fram sem niðurgreiðsla á verðtryggð húsnæðislán. Mér þykir það afskaplega undarlegt að stór hluti niðurgreiðslunnar hjá sumum fari inn á óverðtryggð lán. Ég tel ekki að það hafi verið það sem fólk átti von á en rökin eru sem sagt þau að það er hærra en verðtryggða húsnæðislánið, þess vegna fer það þangað inn. Svo er vert að halda því til haga að það kom hér fram í gær að þetta væri á kostnað hrægamma en það er ekki þannig, þetta er á kostnað ríkissjóðs.

Það sem mig langaði að segja hér í dag er að við erum að lesa hér um eldri borgara og öryrkja sem eru svipt lífeyrisgreiðslum sínum vegna þess að þau þurfa að dvelja inni á sjúkrastofnunum um tiltekinn tíma. Það er eitthvað sem við þurfum að lagfæra og standa saman að. Gjörningur í gær var hér á Austurvelli þar sem líkkistu var komið fyrir, þar sem öryrkjar áréttuðu sín kjör og að þeir hefðu ekki verkfallsrétt, og töldu það standa fyrir bæði andvana ríkisstjórn og andvana öryrkja.

Á sama tíma og þetta er allt saman að eiga sér stað og verkafólk og almennt launafólk er að boða hér verkföll er aðalfundur til dæmis HB Granda sem ætlar að taka afstöðu til arðgreiðslna upp á tæpa 3 milljarða. Fyrirtækin í landinu telja sig ekki geta boðið launafólki sínu upp á 300 þús. kr. laun á næstu þremur árum, segja að þá fari allt á hliðina. Þvílík hræsni, virðulegi forseti. Og ekki nóg með það, á sama tíma hyggst ríkisstjórn Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar fjölga seðlabankastjórum í þrjá. Það er útspil ríkisstjórnarinnar með tilheyrandi kostnaði. Hvers lags forgangsröðun er þetta?

Prófessorar í hagfræði segja þetta algjöran óþarfa og að þetta lykti af pólitík. Það eru ekki heldur margir sem uppfylla þau skilyrði sem þarna þarf að hafa og það þrefaldar (Forseti hringir.) vandræðin. Ríkisstjórnin þarf að fara að hugsa um í hvað hún vill forgangsraða fjármunum sínum.