144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

störf þingsins.

[15:21]
Horfa

Frosti Sigurjónsson (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir þann heiður að vera spurður svona djúpra og áhugaverðra spurninga um skattkerfið. Ég verð að játa að ég er enn ekki alveg búinn að gera upp hug minn endanlega í þessum málum. Ég er enn þá með hug byrjandans og hef áhuga á öllum sjónarmiðum.

En almennt sagt þá hef ég ekki heyrt að ríkisstjórnin stefni beinlínis að því að afnema þrepaskipt skattkerfi, ég hef ekki séð það í stjórnarsáttmálanum. Ég veit að fjármálaráðherrann hefur talað fyrir því. Ég hef áhuga á að heyra öll rök með og á móti því. Almennt held ég að við séum öll sammála um að eðlilegt sé að nota skattkerfið í einhverjum mæli til tekjujöfnunar og að stuðla að meiri jöfnuði í samfélaginu, ég held að allir séu sammála um það á Íslandi, hvort sem þeir eru í hægri eða vinstri flokki eða miðjuflokkum. En síðan er spurningin hvað við getum gengið langt í því áður en það byrjar að vera letjandi fyrir þá sem á þeim tíma ævi sinnar vinna t.d. mikið og leggja kannski á sig mjög mikla vinnu. Maður heyrði sögur til dæmis frá einhverju Norðurlandanna þar sem tannlæknar fóru heim kl. 12 og enginn fékk tannviðgerðir af því að þá var kominn 90% jaðartekjuskattur á viðbótarviðgerð. Þá hlýtur það sem við viljum ná fram að hafa snúist upp í andhverfu sína.

Ég er alveg sammála hv. þingmanni sem er hérna fyrirspyrjandi, það þarf að gæta að því að skattkerfið sé til þess að afla ríkissjóði tekna til að stuðla að sameiginlegum verkefnum, til að við getum staðið að þeim verkefnum sem við viljum standa sameiginlega að. Það er eðlilegt að þeir sem bera meira úr býtum og vinna mikið greiði að sjálfsögðu meiri skatta, hvort sem kerfið er þrepaskipt eða ekki. Svo er spurning hvernig þrepunum er stillt upp, hvað er mikill persónuafsláttur og annað. Ég hef mikinn áhuga á að kynna mér rækilega allar þessar hugmyndir og sjónarmið og ræða í þinginu. Ég vona að breytingarnar, ef gerðar verða, verði til góðs.