144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

störf þingsins.

[15:26]
Horfa

Þorsteinn Sæmundsson (F):

Hæstv. forseti. Ég ætlaði að tala um allt annað mál en ég enda svo á að tala um því að umræður hafa verið svo skemmtilegar að ég verð að taka þátt í þeim. Ég gleðst alveg rosalega yfir því að hér stendur upp hv. þm. Lilja Rafney Magnúsdóttir, fulltrúi VG, og fer að tala um ferðaþjónustu sem VG vildi skattpína til dauðs í fyrra. Ég er svo ánægður með þessi sinnaskipti að ég bara verð að koma hér upp og tjá þessa hamingju mína.

Að öðru leyti ætlaði ég nú líka, af því ég er nú á þessum hamingjusömu nótum sem hv. þm. Bjarkey Olsen Gunnarsdóttir talaði um hér áðan, að segja að auðvitað erum við framsóknarmenn rífandi stoltir og ánægðir yfir því að afrek okkar í skuldaleiðréttingunni séu komin til framkvæmda, að tæplega 100.000 einstaklingar sem sóttu um, að 500 undanskildum sem afþökkuðu á síðustu stundu og hafa sjálfsagt góðar ástæður til þess, séu nú búnir að fá leiðréttingu sinna mála, 60.000 heimili. Auðvitað er það stórt afrek og auðvitað erum við stolt af þessu.

Við höldum áfram að vera stolt af þessu vegna þess að við finnum það og sjáum og heyrum hve þessi aðgerð skiptir fólk út um allt land miklu máli. Margir hafa fengið leiðréttingu upp á 1 til 3 milljónir, skuldir þeirra hafa lækkað um það. Mánaðarleg greiðslubyrði hefur kannski lækkað um 15.000 til 25.000 kr. sem eru jú 180.000 til 300.000 kr. á ári. Ef lánið á eftir 10 ár af líftíma sínum þá eru þetta 1,8 til 3 milljónir á 10 árum. Hvern munar ekki um þetta, herra forseti? Hvern munar ekki um þetta?

Þá verðum við líka að taka það til, sem alltaf kom fram í undirbúningi þessarar framkvæmdar, að 80% af upphæðinni lentu hjá fólki sem hafði undir 8 milljónum í árstekjur, þ.e. eins og tveir BSRB félagar. Ætli það muni ekki um þetta?