144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

störf þingsins.

[15:28]
Horfa

Willum Þór Þórsson (F):

Hæstv. forseti. Í ræðu minni í gær undir liðnum um störf þingsins ræddi ég nýbirtar tölur Hagstofunnar um lífskjör barna og þá alvarlegu staðreynd að um tíundi hluti barna byggi við skert lífskjör og það væri farið að koma niður á þátttöku þeirra í skipulögðu æskulýðs- og tómstundastarfi. Þessi vandi er að stærstum hluta til tengdur tekjum og húsnæðisvanda, m.a. hárri leigu og kostnaði við fjármögnun húsnæðis. Við getum bætt þessa stöðu og við þurfum sannarlega að bæta lífskjör þeirra sem lægstar hafa tekjurnar og koma með lausnir á húsnæðismálum. Ég get vitnað til fjölskyldustefnu og barnasáttmála, skuldbindinga um að tryggja rétt allra barna til verndar, umönnunar og þátttöku í þjóðfélaginu.

Virðulegi forseti. Með fullri virðingu fyrir öllum þeim málum sem við fjöllum um og eru á dagskrá þingsins þá eru kjarasamningar og húsnæðismál samofin og í mínum huga algjör forgangsmál (ÖS: Heyr, heyr.) Þegar kemur að kjarasamningum er tíminn orðinn naumur, verkföll kosta okkur öll. Það blasir við að rétta þarf hlut þeirra lægst launuðu. Krafan er skýr, hún er skiljanleg. Deila samningsaðila er hörð og lykilorðin eru þau sömu; verðstöðugleiki, framleiðni og kaupmáttur. Framleiðni er forsenda, stöðugleiki og kaupmáttur haldast í hendur, en það er almennt ákall um jöfnuð, um bætt kjör og verulega hækkun lægstu launa. Það er ekki vafi í mínum huga að við eigum að hlusta, við eigum að auka jöfnuð, hækka lægstu launin duglega og hlutfallslega mest. Ríkisstjórnin er í færi til að koma með innlegg sem leysir þessa deilu. Við getum staðið okkur í þinginu þegar húsnæðisfrumvörpin koma inn og ríkisstjórnin getur gert þetta og við öll í krafti jöfnuðar.