144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

störf þingsins.

[15:35]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Ég hygg að hæstv. forseti taki undir með mér þegar ég segi að það gerist ekki oft að ég hrópi heyr, heyr, þegar Framsóknarflokkurinn hefur lokið máli sínu. Ég gerði það þegar hv. þm. Willum Þór Þórsson lauk sinni góðu ræðu hér áðan. Ég er algjörlega sammála honum um það að það sem skiptir mestu máli í dag er að ráða bót á þeirri miklu meinsemd sem húsnæðisvandinn í samfélaginu er orðinn. Ég hvet Framsóknarflokkinn til dáða í því máli og mun styðja hann til góðra verka þar.

Við höfum aldrei áður lifað þá tíma þar sem fólk, sérstaklega ungt fólk, á jafn erfitt með að koma fótum undir sig á húsnæðismarkaði og leigumarkaði og í dag. Í fyrsta skipti hefur það gerst að ef um er að ræða fjölskyldu þar sem fyrirvinnurnar báðar eru í láglaunastörfum en hafa samt trygga atvinnu á hún erfitt með að komast í gegnum greiðslumat. Það hefur held ég ekki gerst áður að ungt fólk sem hefur öðlast góða menntun og er að koma út úr menntakerfinu nær ekki heldur að fóta sig á húsnæðismarkaði. Því segi ég: Þetta er stóra meinsemdin í samfélaginu í dag. Við þurfum að taka höndum saman um að ráða bót á því.

Fyrir nokkrum mánuðum sagði forseti Alþýðusambandsins, Gylfi Arnbjörnsson, að ríkisstjórnin þyrfti að koma með sterkt útspil í húsnæðismarkaðinn. Ég tel að nú, þegar við horfum fram á meiri ólgu á vinnumarkaði en nokkru sinni fyrr, sé kallað á það. Það er tvennt sem þarf að gerast í þessu samfélagi, ríkisstjórnin þarf að taka á í húsnæðismálum, og þar bendi ég á þær sjö tillögur sem samþykktar voru á landsfundi Samfylkingarinnar, og sömuleiðis tel ég og lýsi yfir stuðningi við kröfur ASÍ og verkalýðshreyfingarinnar um 300 þús. kr. lágmarkslaun. Það er algjör forsenda þess að aftur dragi saman með þeim sem mest hafa og þeim sem minnst hafa að það verði að minnsta kosti niðurstaðan úr kjarasamningum.