144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[15:40]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns svara hérna fyrir mig og minn flokk, ég er ekki þekkt fyrir að vilja að einhver eigi eitthvað inni hjá mér. Það kom hörð gagnrýni á að vinstri græn hefðu ætlað að skattleggja ferðaþjónustuna í drep á síðasta kjörtímabili sem er auðvitað fjarri lagi. Að ferðaþjónustan rísi ekki undir virðisaukaskatti, eins og greinin skilar miklum arði í dag, er bábilja og núverandi ríkisstjórn hækkaði virðisaukaskatt á ferðaþjónustu, eins og menn vita, upp í 11%. Áform voru um að hækka virðisaukaskatt upp í 14% á síðasta kjörtímabili sem er lægri tala en almennt gerist hjá atvinnuvegum í landinu.

En gott og vel, hér erum við að ræða frumvarp til laga um breytingu á lögum um alþjóðlega þróunarsamvinnu Íslands o.fl. Þetta mál var rætt hér í allan gærdag og gengur út á að það á að færa Þróunarsamvinnustofnun Íslands undir utanríkisráðuneytið. Í umræðunni hafa komið upp ýmsar vangaveltur um hvað valdi, hvaða tilgangi þetta eigi að þjóna og hverju menn telja að sé náð fram með þeim breytingum að taka þessa stofnun til fjölda ára inn í ráðuneytið. Eins og hæstv. ráðherra hefur talað eru áform hans ekki þau að þarna verði sparnaður í kjölfarið. Það á ekki að draga úr starfseminni eða fækka fólki. Það kom fram í viðtali hæstv. utanríkisráðherra við Ríkisútvarpið fyrir nokkru að hann teldi að verið væri að efla þróunarsamvinnu. Hann segir, með leyfi forseta:

„Það er búið að vinna margar skýrslur um hvernig best sé að halda á þróunarsamvinnu. Þær hafa allar komist að þeirri niðurstöðu að það sé rétt að sameina þetta inn í ráðuneytin. Það sem ég tel að við fáum út úr því er sterkari þróunarsamvinnudeild, eða svona þróunarsamvinnustofnun sem við verðum með í ráðuneytinu þar sem marghliða og tvíhliða eru að vinna saman enn þá betur en þeir gera í dag, þótt það sé ágætt samstarf á milli.“ — Svo bætir hann við að það verði betri nýting á starfsfólki inni á þessari skrifstofu.

Það er ekki rétt að niðurstöður allra skýrslna hafi verið að það væri rétt að fara með Þróunarsamvinnustofnun inn í utanríkisráðuneytið. Hér hefur verið vitnað í skýrslu Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur frá 2008 þar sem komist er að þveröfugri niðurstöðu í þessum efnum og mun ég koma aðeins inn á þá skýrslu í framhaldinu í mínu máli. Þetta mál núna er fyrst og fremst byggt á skýrslu sem Þórir Guðmundsson vann, sviðsstjóri Rauða krossins.

Ég spyr líka: Af hverju mátti ekki ræða þessa skýrslu áður en svo langt var gengið á Alþingi að hún yrði lögð fyrir og jafnvel líka skýrsluna sem Sigurbjörg Sigurgeirsdóttir vann um þessi mál þó að hún sé orðin nokkurra ára gömul? Af hverju var ekki tilvalið að leggja þessar skýrslur inn til umræðu á Alþingi og færa inn í fagnefndina, utanríkismálanefnd? Síðan mundi Alþingi komast að niðurstöðu og skila frá sér áliti í kjölfar umræðunnar um þessar skýrslur. Í framhaldi af því mundi ráðherra vega og meta hvað skyldi gera í framhaldinu. Ég held að það hefði verið miklu lýðræðislegra og að fleiri hefðu þá tök á því að koma að þessu máli því að þetta er ekkert einkamál hæstv. utanríkisráðherra eða eins flokks, heldur er þetta þannig mál að við ættum að reyna að vanda okkur og komast að þverpólitískri niðurstöðu í því.

Það er ekkert langt síðan við tókum til umræðu á Alþingi skýrslu um sæstreng, tókum hana inn í atvinnuveganefnd og skiluðum niðurstöðu. Ráðherra er ekki búinn að gera það upp við sig hvað hann gerir i framhaldi af því máli. Mér fannst það bara mjög fagleg vinnubrögð að vinna málið svona og hleypa Alþingi að undirbúningi vinnu við að skoða og endurskoða með hvaða hætti best sé að hafa Þróunarsamvinnustofnun í framtíðinni, hvort það sé gott að hafa hana áfram eins og hún er, eða fara með hana inn í ráðuneytið eða hvað menn vilja gera.

Það sem kemur fram á bls. 8 í frumvarpinu styður það að þessi stofnun sé til fyrirmyndar eins og segir hér:

„ÞSSÍ hefur unnið mjög gott starf á vettvangi þannig að eftir því er tekið, og hefur margsannað sig í óháðum úttektum. Í því samhengi ber að benda á að aðferðafræði ÞSSÍ og hlutverk stofnunarinnar í framkvæmd þróunarverkefna hefur tekið þó nokkrum breytingum á liðnum árum. Þannig hefur framkvæmdin í auknum mæli verið að færast yfir á innlenda aðila í samstarfslöndum Íslands, svo sem héraðsstjórnir. Er þessi breyting í takt við alþjóðlegar yfirlýsingar um árangur þróunarsamvinnu þar sem lögð er áhersla á eignarhald heimamanna í þróunaríhlutunum.“

Miðað við svona mat sem kemur hér fram ættu menn að slá skjaldborg um þessa stofnun, verja hana og leyfa henni að halda áfram að vaxa og dafna eins og hún hefur verið að þróast.

Við þekkjum þann mikla niðurskurð sem varð hjá utanríkisráðuneytinu árið 2013 og heyrðist nú víða hljóð úr horni undan þeim mikla niðurskurði. Eru menn virkilega fyrst og fremst að reyna að ná fjármagni inn í ráðuneytið til þess að deyfa þann sársauka sem varð í kjölfar þess mikla niðurskurðar? Maður getur ekki annað en spurt sig af því að maður sér ekki nægan rökstuðning fyrir því að færa þessa merku stofnun inn í utanríkisráðuneytið.

Við þekkjum líka umræðuna á Alþingi um niðurskurð til þróunaraðstoðar og það er auðvitað okkur til skammar að tala á þeim nótum. Sem betur fer hugsar mikill minni hluti hv. þingmanna þannig en þessi viðhorf eru samt til staðar og við verðum að gera allt sem við getum til að ná því markmiði að Ísland verði þjóð meðal þjóða og nái því að greiða 0,7% af landsframleiðslunni til þróunaraðstoðar. Í dag fara rúmir 4 milljarðar í þennan málaflokk og það kom fram hjá DAC-nefndinni svokölluðu, sem er á vegum OECD, að stærsti veikleikinn væri að það skorti eftirlit með starfseminni. Ég held að það sé rétt að taka undir það, við þurfum auðvitað að vanda okkur vel við að hafa eftirlit með þessari starfsemi svo þessir fjármunir nýtist sem best.

En er endilega gott að starfsemin fari undir ráðuneytið, framkvæmdarvaldið, og þar sé á sömu hendi stefnumótun, framkvæmd og eftirlit? Ég held að það sé ekki gott og ekki í takt við nútímastjórnsýsluhætti að fara með þetta inn með þeim hætti.

Það hefur líka komið fram í umræðunni að það sé verið að bíða eftir stjórnsýsluúttekt hjá Ríkisendurskoðun og skýrslu þróunarsamvinnunefndar og OECD, þ.e. jafningjaúttekt. Ég held að þetta mál sé þannig vaxið að okkur liggi ekki reiðinnar ósköp á að berja þetta í gegn. Ég held að það hljóti að vera miklu brýnni mál efst á blaði. Þó að ég taki kannski ekki undir mörg mál sem ríkisstjórnin hefur hug á að koma í gegn eru samt verkefnin til staðar. Auðvitað vonar maður að menn fari að taka til hendinni í brýnum málum sem snúa að almenningi í landinu en séu ekki að hrófla við stofnunum sem hafa sýnt fram á að hafa unnið mjög faglega, þróað sína starfsemi og verið innan fjárlaga. Eins og sagt er einhvers staðar í góðri vísu: Ekkert upp á hana að klaga, edrú alla daga, en það er víst önnur ella.

Ég gluggaði í skýrslu Sigurbjargar Sigurgeirsdóttur um þessi mál, af hverju hún teldi að það ætti ekki að leggja Þróunarsamvinnustofnun niður eða færa inn í ráðuneytið. Ég ætla að vitna í skýrsluna, þar segir, með leyfi forseta:

„Skortur á samræmingu málsmeðferðar og samhæfingu við framkvæmd stefnu í málum, er varða tvíhliða og marghliða þróunarsamvinnu, hefur löngum verið talið vandamál. Til að leysa þann vanda hefur komið fram sú tillaga að fella starfsemi ÞSSÍ inn í utanríkisráðuneytið. Þar með yrði marghliða og tvíhliða þróunarsamvinna Íslands sameinuð og á einni hendi innan ráðuneytisins. Hér í þessum tillögum til ráðherra er lagst gegn þessari leið. Það er gert í ljósi þess að ýmis almenn rekstrar- og stjórnunarverkefni, sem fylgja framkvæmd tvíhliða samvinnu, samrýmast illa hlutverki og vinnuumhverfi ráðuneyta, en einkum þó vegna þeirra áhrifa sem slík sameining getur haft á stefnumótunarvinnu í málaflokknum.“

Ég held að þetta séu góð rök fyrir því að fella ekki þessa stofnun undir utanríkisráðuneytið.

Í framhaldinu leggur skýrsluhöfundur til, með leyfi forseta:

„Þróunarsamvinnustofnun Íslands verði áfram rekin sem sjálfstæð stofnun. Hlutverk hennar sem fagstofnunar, sem heyri undir utanríkisráðuneytið, verði eflt.“

Ég er sammála því að horfa á þetta út frá því sjónarhorni að efla starfsemina eins og hún er í dag.

Hér segir áfram:

„ÞSSÍ yrði eftir sem áður, að því er varðar stjórnun og rekstur, sérstök stofnun sem heyrði undir utanríkisráðuneytið. Sú breyting yrði hins vegar á tengslum ÞSSÍ og ráðuneytisins að framkvæmdastjóri ÞSSÍ bæri nú faglega ábyrgð á framkvæmd tvíhliða þróunarsamvinnu gagnvart yfirstjórn ráðuneytisins. ÞSSÍ fengi þá sem stofnun meira faglegt vægi gagnvart ráðuneytinu.“

Ég hefði mikinn áhuga á að vita hvort hæstv. ráðherra hafi farið í gegnum þessa skýrslu þegar hann tók þá ákvörðun að fara fram með þessum hætti. Mér finnst allt of mikill flumbrugangur í hæstv. ráðherra þegar hann keyrir þetta svona hart í gegn. Núverandi starfsmenn Þróunarsamvinnustofnunar hafa verið mjög hræddir við að stíga fram og tjá sig um þetta mál sem er kannski ekkert skrýtið. Það er talað um að þetta eigi ekki að kosta neitt og að núverandi starfsmönnum verði boðin sambærileg störf í ráðuneytinu. En ég spyr mig líka: Er það sjálfgefið? Fólk á sín réttindi og sambærileg störf eru ekki alltaf sambærileg. Ég er ansi hrædd um að það eigi eitthvað eftir að heyrast þar þegar kemur að því að sjanghæja þessa stofnun sisona í einhverja skúffu í utanríkisráðuneytinu. Þá hljóta að skarast einhverjir hlutir og fólk eigi réttindi umfram það að bara sé hægt að púsla því inn í ráðuneytið án þess að það eigi rétt á lagfæringu (Forseti hringir.) á sínum kjörum.