144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:05]
Horfa

Lilja Rafney Magnúsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir spurninguna. Ég kom einmitt inn á þetta áðan varðandi fagteymið, DAC-nefndina svokölluðu á vegum OECD, sem nefndi að stærsti veikleikinn væri að eftirlit skorti með starfseminni. Þarna eru á ferðinni miklir fjármunir og er auðvitað mjög brýnt að eftirlitsþátturinn sé í lagi, ekki síður ef þetta á að færast inn í ráðuneytið þar sem stefnumótun, framkvæmd og eftirlit á allt að vera á sömu hendi. Ég get ekki séð að það samræmist núverandi stjórnsýslulögum.

Hv. þingmaður benti á 8. gr. sem hljóðar svo:

„Framkvæmd stefnu stjórnvalda um alþjóðlega þróunarsamvinnu, samanber 5. gr., skal háð reglulegu eftirliti og úttektum óháðra aðila.“

Hverjir eru þessir óháðu aðilar? Eins og hv. þingmaður segir er skýringin með þessari grein sú að greinin þarfnist ekki skýringa. En við krefjumst þess að greinin verði skýrð, að hæstv. ráðherra skýri þessa grein ef það hefur af einhverjum sökum fallið milli skips og bryggju að gera það við samningu þessa máls. Það er grafalvarlegt að ætla sér að taka þessa stofnun í heilu lagi, skella henni undir framkvæmdarvaldið og vísa svo bara út í tómið hverjir eigi að hafa eftirlit með starfseminni. Þetta stenst enga skoðun og getur ekki verið ásættanlegt. Ég held að bara þetta eitt og sér undirstriki að málið er vanbúið. Hæstv. ráðherra á að draga þetta mál til baka, leggjast undir feld og hugsa málið (Forseti hringir.) allt upp á nýtt.