144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:08]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég ætla að undirstrika eitt af aðalatriðunum í þeirri hingavitleysu sem er að finna í þessu frumvarpi og það er þetta: Hæstv. ráðherra á samkvæmt frumvarpinu að bera ábyrgð á framkvæmd stefnunnar inni í sínu ráðuneyti. Og hver á að bera ábyrgð á honum og hafa eftirlit með honum? Undirmaður hans. Þarf eitthvað frekar um þetta að segja?

Af þessum sökum taldi stjórnarandstaðan nauðsynlegt að fá fram stjórnsýslumat Ríkisendurskoðunar á þessum áformum. Hvers vegna? Vegna þess að Ríkisendurskoðun hefur um 25 ára skeið predikað að það eigi að skilja á milli stefnumótunar og framkvæmdar annars vegar og eftirlits hins vegar. Þess vegna hafa menn á 25 árum verið að taka stofnanir eða stofnanaígildi út úr ráðuneytum. Það er ekkert dæmi um að stofnun hafi verið færð inn í ráðuneyti. (Forseti hringir.) Þetta er þvert gegn öllum þeim meginreglum sem Ríkisendurskoðun hefur lagt fram. Hvers konar stjórnsýsla er þetta og hvers konar vitleysa er það af hinu ágæta forsetadæmi að (Forseti hringir.) stoppa ekki þessa umræðu og bíða þangað til mat Ríkisendurskoðunar liggur fyrir?