144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[16:31]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Já, ég held að hv. þingmaður hitti þarna naglann á höfuðið. Það er hinn faglegi grunnur sem maður veltir fyrir sér, því að þó að markmiðin séu í sjálfu sér ágæt, að bæta hér stefnumótun og skilvirkni og annað slíkt, þá benda engin dæmi sem hafa verið nefnd í þessari umræðu til þess að eitthvað vanti upp á árangur af starfi Þróunarsamvinnustofnunar. Þá fer maður auðvitað að velta fyrir sér: Til hvers að leggjast í umfangsmiklar breytingar ef staðan er góð?

Hv. þingmaður nefndi líka nauðsyn fyrir þverpólitíska sátt um málefni á borð við þetta og síðast þegar þessi mál voru tekin til endurskoðunar var lögð talsverð vinna í að ná þeirri þverpólitísku sátt. Mig langar að spyrja hv. þingmann að lokum: Hvernig sér hv. þingmaður fyrir sér að þetta mál haldi áfram hér í þinginu þegar 1. umr. lýkur? Hvaða breytingar telur hann nauðsynlegar? Er réttast hreinlega að falla frá málinu að sinni, bíða eftir úttekt eða sér hann fyrir sér að hægt væri að gera einhverjar breytingar til bóta á málinu?