144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:37]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er kannski rétt að segja í byrjun að þó að einhver komi með vonda hugmynd og einhverjir reyni að sporna við henni þýðir það ekki að við eigum augljóslega að bíða til að geta skoðað hversu kjánaleg hún er. Ég vil að það liggi skýrt fyrir að ég er alfarið á móti þessu frumvarpi. Þetta er ekki góð hugmynd og það er augljóst fyrir öllum sem eitthvað hafa kynnt sér efni máls. En það er kannski ákveðin vörn í málinu að kalla fram ákveðnar upplýsingar sem sýna betur hversu óheppilegt þetta fyrirkomulag er, af því að hæstv. ráðherra virðist ekki hafa haft fyrir því að kynna sér það áður en hann lagði málið fram.

Síðan er ég alveg sammála því að auðvitað á að bíða og þá ætti kannski biðin að miða að því að menn velti því fyrir sér hvort hin marghliða samvinna ætti að fara yfir til Þróunarsamvinnustofnunar. Nú er það svo að tímarnir breytast og áherslur breytast og breytingar geta verið eðlilegar. En að fara að taka opinberar stofnanir og flytja þær inn í ráðuneyti til að styrkja innviði í ráðuneytum sem búið er að skera niður nú á síðustu tveimur árum, af einhvers konar geðþótta, er vond hugmynd og hún batnar ekkert þótt beðið sé eftir úttektum. Ég held að það sé líka mikilvægt að hafa í huga að menn láti ekki teyma sig út í þá vitleysu af því að þetta er vont frumvarp og þetta er vond hugmynd og hún verður það áfram.