144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:42]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að það séu engin rök, það er ekkert sem gefur okkur til kynna að þarna sé eitthvert óhagræði og tvíverknaður. Eins og ég kom inn á í ræðu minni hefur Ríkisendurskoðun þvert á móti lýst yfir mikilli ánægju með nýtingu fjármuna hjá Þróunasamvinnustofnun. Ég held að frumvarpið lýsi fyrst og fremst viðhorfi þessarar ríkisstjórnar til þróunarsamvinnu. Þeim finnst þróunarsamvinna kannski þess eðlis að það sé ágætt að hafa hana sem eina skúffu í ráðuneytinu og það sé þá hægt að vinna með hana þar. Það er einsdæmi, það er einmitt verið að leita eftir því í skýrslubeiðninni. Hefur það verið gert nýlega, á undangengnum árum, að leggja niður stofnun og setja hana beinlínis inn í ráðuneyti. Er þetta það sem við eigum von á, að farið verði að leggja niður stofnanir og setja þær undir ráðherra til að auka ráðherraræði? Við höfum nú nýlega orðið vitni að því hér í þinginu með bréfi einmitt þess sama hæstv. ráðherra og lagði þetta frumvarp fram þar sem taka átti að fram fyrir hendurnar á þinginu, að við höldum þó að við skiljum það ekki alveg og það hafi ekki alveg komið fram hvað hafi eiginlega átt að gera. Hér ætlar ráðherra ekki bara að vera með stofnanir undir ráðuneytinu heldur beinlínis taka þær inn í ráðuneytið og ber fyrir sig einhvers konar hagkvæmnisrökum sem eru þvert á álit Ríkisendurskoðunar að því er við best vitum miðað við úttektir hans og yfirlýsingar.