144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:50]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg):

Herra forseti. Ég kem hér upp í seinni ræðu mína sem er stutt, bara til að fara yfir stóru línurnar, ég mun ekki lengja umræðuna mikið. En í fyrsta lagi verður að segjast eins og er að mér finnst ákaflega dapurlegt eins og ég hef sagt að hv. þingmenn stjórnarflokkanna kjósi að taka ekki þátt í umræðunni. Mér finnst það óskiljanlegt í ljósi þess að hér hefur verið spurt ýmissa spurninga, gagnrýni sett fram, mishvöss að sjálfsögðu, en spurt hefur verið mjög mikilvægra spurninga sem hafa ekki verið ræddar sem skyldi í dag í þessari málstofu sem við köllum Alþingi Íslendinga. Ég vil ítreka við forseta að það þarf auðvitað að skoða hvort við ætlum að halda áfram samtali í þinginu þannig að við eigum í raun og veru ekkert samtal.

Það sem ég benti á í fyrri ræðu minni og mig langar að ítreka það eftir að hafa hlustað hér á aðra tala sem mér finnst hafa bætt ýmsu við það, er að mér finnst veigamesta gagnrýnin á að sameina Þróunarsamvinnustofnun utanríkisráðuneytinu vera sú að ekki hafa verið færð nægilega sannfærandi rök fyrir því að vel fari á því að hafa stefnumótun, framkvæmd og eftirlit á sama stað. Ég tel að það flæki í raun og veru málin ef ráðuneytið á að hafa eftirlit með sjálfu sér og reiða sig svo á eftirlit Ríkisendurskoðunar sem hefur mörg verkefni á sinni könnu og sínu borði.

Það hefur líka verið bent á að þarna geti þröng staða utanríkisráðuneytisins haft eitthvað segja, þ.e. að skorið hefur verið verulega niður hjá utanríkisráðuneytinu. Mér finnst ástæða til þess að við förum yfir það hvort þetta kunni að hafa þau áhrif að málaflokkur þróunarsamvinnu verði á einhvern hátt umfangsminni. Ég væri mjög ósátt við þá þróun því mér finnst þetta vera slík grundvallarstoð í utanríkisstefnu okkar. Þarna tel ég að við Íslendingar höfum staðið okkur vel. Ég tel að við höfum náð árangri og það er ekki bara mitt mat, rannsóknir og mat sýna að við höfum náð árangri. Ég fór yfir það í fyrri ræðu minni þannig að ég ætla ekki að endurtaka það. En þegar við erum að gera góða hluti er mikilvægt að við gerum ekkert sem getur eyðilagt þann árangur eða haft áhrif á það að hann verði síðri með einhverjum hætti. Þannig að ég spyr enn: Ef við erum sátt við árangurinn, sem ég sé ekki betur en á greinargerðinni að við séum og að öll gögn sýni að við séum sátt við árangurinn, hvers vegna erum við þá að breyta kúrsi með þessum hætti?

Ég hef líka bent á að ýmsir kostir fylgja því að fela fagstofnunum framkvæmd mála af því tagi og við ræðum hér. Það skapar ákveðinn stöðugleika í stefnu milli ríkisstjórna. Það skapar ákveðna fjarlægð frá pólítíkinni og fagstofnanir hafa að einhverju leyti meira frjálsræði í miðlun upplýsinga til að mynda en ráðuneyti. Hér hafa því verið færð umtalsverð rök fram í umræðunni af þeim hv. þingmönnum sem hér hafa talað, umtalsverð rök gegn þessu máli. Hér hefur verið lýst efasemdum sem ég tel grundaðar á ágætisrökum og ég sakna þess að þeim hafi ekki verið svarað

Nú eigum við vissulega von á skýrslu frá ráðuneytinu þar sem einhverjum af þessum spurningum verður svarað en að þessar spurningar fái að fara inn í umræðuna án mikilla svara, mikilla mótraka eða samræðu, vekur auðvitað upp spurningar um hvort málið allt sé ekki vanbúið, hvort ekki sé ástæða til að setjast niður á hinu þverpólitíska sviði.

Það sem ég vil segja hér að lokum, því tími minn styttist, er hvort ekki sé ástæða fyrir ráðherra, þótt málið sé formlega komið til þingsins, að eiga samtal við fulltrúa ólíkra flokka til þess að kanna hug fólks í málinu. Hæstv. ráðherra hefur raunar setið hér undir umræðum þannig að hann þekkir a.m.k. hug fulltrúa fjögurra flokka í þessu máli. Ég vil spyrja hvort ekki sé unnt að skapa áframhaldandi þverpólitíska sátt um skipulag, þróunarsamvinnu hjá okkur í stjórnsýslunni þannig að við stefnum ekki þeim góða árangri sem náðst hefur á þessu sviði í hættu, árangri sem við getum öll verið stolt af, hvar í flokki sem við stöndum. Til að við stefnum þeim árangri ekki í hættu verði lagt af stað með það að skapa sátt, fara yfir málið, fara ekki í þann leiðangur að reyna að keyra það í gegnum þingið í krafti meiri hluta, heldur staldra við. Það læt ég vera lokaorð mín í þessari umræðu.