144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[17:58]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni andsvarið. Ég vil bara segja það að ég hef ítrekað lýst eftir sjónarmiðum hv. þingmanna Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins. Hér var nú að ganga í salinn hv. þingflokksformaður Framsóknarflokksins. Ég sakna þess að enginn hv. þingmaður hafi séð ástæðu til að tjá sig í þessu máli. Mér er algjörlega ómögulegt að skilja það. Ég sagði það í gær að ég gæti svo sem ekki plantað ástríðufræjum í hjörtu þessara þingmanna, ef þeir hafa engan áhuga á málinu þá er það að sjálfsögðu handan minnar getu að gera það áhugavert í þeirra huga. Ég hefði hins vegar talið að það væri hluti af eðlilegum samskiptum í þinginu að þingmenn ólíkra flokka skiptust á skoðunum í þingsal. Mér finnst þetta algjörlega ótrúlegt, sérstaklega af því að meiri hlutinn á sex fulltrúa í nefndinni og ég hef séð þá hér, ég hef séð þá við umræðuna og hv. formaður utanríkismálanefndar hefur verið hér og hlýtt á okkur. Mér finnst því mjög skrýtið að hafa ekki fengið að hlýða á sjónarmið þeirra. Kannski eiga þeir bara eftir að móta sér skoðun og hlusta á meðan á okkur af mikilli andakt.

Hvað varðar vinnuna í utanríkismálanefnd þá hef ég setið í henni eingöngu frá síðasta hausti og get ekkert kvartað yfir starfsaðferðum nefndarinnar þannig að ég treysti á að menn verði málglaðari þegar á nefndarfund er komið og reiðubúnir að vinna að málinu eins vel og hægt er. Ég ætla bara að treysta því að þannig verði það þangað til annað kemur í ljós. En ég lýsi miklum vonbrigðum með að engir hv. þingmenn, hvorki í utanríkismálanefnd né öðrum nefndum, hafi tjáð sig um þetta mál. Maður hefði haldið að hv. þingmenn úr öllum nefndum þingsins hefðu áhuga á þessu gríðarstóra máli þar sem við afgreiddum á síðasta kjörtímabili aðgerðaáætlun um þróunarsamvinnu sem allir voru sammála um nema einn þingmaður, (Forseti hringir.) en enginn hefur áhuga á að tjá sig um þessi mál hér.