144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[18:02]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er að minnsta kosti engin ástæða til að auka tortryggni því það er auðvitað svo með þá fjármuni sem renna í þróunarsamvinnu að fjarlægðin er meiri, ólíkt þeim fjármunum sem við setjum beinlínis í skólana okkar hér heima eða vegina, brýrnar eða spítalann eða hvað það er. Þar erum við með mikla nánd við það hvernig fjármunum er varið og við sem hér erum áttum okkur á því og almenningur í landinu áttar sig yfirleitt á því hvernig þeim fjármunum er varið. Það er alla vega ekki mikið vandamál að komast að því. Þegar við verjum fjármunum til þróunarsamvinnu í fjarlægum löndum þar sem við fylgjumst ekki á daglegum basis með því nákvæmlega hvernig þeim er varið skiptir einmitt svo miklu máli að vel sé staðið að því að meta árangur, að vel sé staðið að eftirliti og að gagnsæi sé sem mest. Það sem mér hefur þótt gríðarlega jákvætt hjá Þróunarsamvinnustofnun Íslands er hvernig hún metur í raun og veru árangur af starfinu. Það er gert, eins og ég kom að í einhverju andsvari, ekki bara með því að telja krónur og aura sem sendir eru eða telja fjölda brunna, heldur með því að kanna hvort aðgengi að hreinu vatni hafi haft áhrif á heilsufar á viðkomandi svæði.

Þetta skiptir því auðvitað miklu máli. Það er alveg rétt sem hv. þingmaður bendir á. Ef stofnunin fer a.m.k. undir ráðuneytið þá er það orðið einn og sami fjárlagaliður þó að það séu væntanlega ekki fjármunirnir sem renna svo í sjálf þróunarsamvinnuverkefnin. Væntanlega hlýtur það að vera sundurliðað þótt ég átti mig ekki á því hvernig það verður miðað við frumvarp sem liggur fyrir um opinber fjármál. En ég mundi segja í öllu falli að slíkar fjárveitingar þurfi að vera mjög gagnsæjar og öllum sýnilegt hvernig þeim fjármunum er varið. Það er hætta á því að a.m.k. það sem lýtur að stjórnsýslu þróunarmála (Forseti hringir.) verði ógagnsærra eftir en fyrir ef þetta verður allt saman í einum potti.