144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[18:05]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Katrín Jakobsdóttir er nú eldri en tvævetur og þótt hún hafi ekki setið hér giska lengi eða stóran part ævi sinnar hefur hún séð ýmislegt. Það sem hefur farið fram hér síðustu tvo sólarhringa hefur hún samt aldrei séð áður.

Hv. þingmaður hugsaði upphátt í ræðustól og velti því fyrir sér hvernig stæði á því að enginn þingmaður úr stjórnarliðinu tæki þátt í umræðunni. Ég man ekki eftir því að ríkisstjórnin legði fram umdeilt mál sem varðar utanríkismál þar sem enginn úr utanríkismálanefnd úr stjórnarliðinu tekur þátt, þar sem enginn úr flokki ráðherrans tekur þátt, þar sem enginn úr hinum stjórnarflokknum tekur þátt, þar sem hv. formaður utanríkismálanefndar kýs, eins og hann hefur rétt til, að þruma í sæti sínu og segja ekki aukatekið orð. Hvaða ályktun dregur vitiborin vera eins og hv. þingmaður af því? Ég get sagt henni það og tekið af henni ómakið. Þetta lyktar allt af því að hv. þingmenn stjórnarliðsins hafi nákvæmlega sömu skoðun á þessu máli og sú ágæta þingkona sem hér ræddi áðan. Þeir treysta sér ekki til að verja málið.

Við tókum eftir því að í gær sátu hér töluvert margir þingmenn stjórnarliðsins, einkum úr Framsóknarflokknum. Þeir hafa ekki sést margir í dag. Gæti það verið vegna þess að þeir eru líka skynibornar verur? Þeir hafa hlustað á þessa rökræðu og heyrt að það stendur ekki steinn yfir steini í þeirri röksemdafærslu sem var færð fyrir málinu, þ.e. í ljós kom að það er af rangindum flutt. Þegar því er haldið fram að verið sé að flytja það vegna tilmæla DAC-nefndarinnar reynist það vitleysa.

Ég spyr hv. þingmann: Er hún mér sammála að það kynni að vera að þátttökuleysi hv. þingmanna stjórnarliðsins stafi af því að þeir hafi ekki trú á málum?