144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[18:07]
Horfa

Katrín Jakobsdóttir (Vg) (andsvar):

Herra forseti. Það er rétt að ég hef setið hér síðan 2007 með tveimur stuttum hléum til að fóstra tvö börn. Ég get alveg sagt að það er hárrétt hjá hv. þingmanni, ég man ekki eftir öðru eins þátttökuleysi þegar kemur að stóru máli, umdeildu máli eins og hv. þingmaður segir, af hálfu þingmanna stjórnarflokkanna. Ég man eftir því að hafa mælt fyrir slíkum umdeildum málum sem ráðherra og fengið stuðning úr bæði mínum eigin flokki og samstarfsflokknum í öllum tilfellum í slíkum umræðum, þannig að þetta kemur mér a.m.k. á óvart. Ég hef verið að setja fram ýmsar kenningar, einkum mér sjálfri til skemmtunar því að ekki mæta hv. þingmann stjórnarflokkanna til að bregðast við þeim; hvort þeir hafi ekki áhuga á málinu, hvort þeir hafi ekki kynnt sér málið eða hvort, eins og hv. þingmaður segir, þá bresti þor til að koma upp og eiga rökræður um málið. Ég verð að segja hafandi lesið þær skýrslur sem hafa verið gerðar, lesið þetta frumvarp, hlustað á þau sjónarmið sem hafa komið fram frá þingmönnum fjögurra ólíkra stjórnarandstöðuflokka þar sem ýmis rök og gagnrýni hefur verið sett fram og áttað mig á því að ekki nokkur maður lítur svo á að sér sé skylt að svara þeirri gagnrýni eða eiga samtal um þá gagnrýni, þá er ég farin að sannfærast um að líklegt sé að þá bresti þor til að svara af því þeir hafa ekki sannfæringu fyrir málinu. Það er eitthvað sem mun væntanlega koma á borð okkar í hv. utanríkismálanefnd. En það verður ekki fyrsta stjórnarfrumvarpið sem reynist svo umdeilt í stjórnarflokkunum þegar á hólminn er komið.