144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[18:09]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þingmaður upplýsti að hún hefði hafið störf á Alþingi Íslendinga árið 2007. Ég geri ráð fyrir því að hún muni að minnsta kosti sitja jafn lengi á Alþingi Íslendinga og ég. Þá er ég ekki að reyna að draga upp framtíð hennar dökkum litum, en mér þykir sennilegt að hún sitji að minnsta kosti til ársins 2037. Ég segi að miðað við mína reynslu á hv. þingmaður á öllum þeim tíma sem hún á fram undan á Alþingi Íslendinga litla von til að sjá nokkru sinni mál eins og þetta. Ég tók þessu máli ekkert mjög illa í upphafi. Ég lagði á það áherslu að menn skyldu þó bíða með það þangað til fram kæmu niðurstöður í mati til dæmis Ríkisendurskoðunar. Helst hefði ég viljað bíða eftir jafningjarýni þróunarsamvinnunefndar OECD.

Það sem kemur mér á óvart í umræðunni er að ekki hefur tekist að hrekja neitt þeirra gagnrýnisatriða sem stjórnarandstaðan hefur flutt. Ég rifja upp fyrir hv. þingmanni að alveg frá því að umræðan hófst var hæstv. ráðherra spurður út í þær málsástæður sem hann ýmist gaf í ræðu sinni, andsvörum eða í greinargerðinni. Fyrir engu af þeim málsatriðum gat hann í reynd fært sterk rök.

Ég rifja upp að í greinargerðinni og í ræðu hans kom fram að þetta væri til þess að forðast tvíverknað. Hvar er sá tvíverknaður? Hæstv. ráðherra gat ekki bent á það. Það var til þess líka, að hans sögn, að koma í veg fyrir árekstra. Hæstv. ráðherra var spurður: Hvar hafa þeir árekstrar orðið? Hann gat ekki svarað því. Hæstv. ráðherra talaði um flækjustig. Menn spurðu um það. Hann gat ekki svarað því. Það var lítið um svör þegar bent var á að í DAC-skýrslunni eða DAC-álitinu kemur skýrt fram að sérstaklega er talað um og borið lof á skipulagið á Íslandi í þróunarsamvinnu vegna þess að verkaskipting milli ráðuneytis og Þróunarsamvinnustofnunar er skýr.

Svo ég ætla að leyfa mér að spá því (Forseti hringir.) að hv. þingmaður muni aldrei aftur sjá jafn illa rökstutt og innstæðulaust frumvarp þótt hún (Forseti hringir.) sitji hér jafnvel til 2070.