144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[18:32]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka hv. þingmanni spurninguna. Já, ég tek undir með henni og eins og ég fór svolítið yfir í ræðu minni þá er rökstuðningurinn með frumvarpinu og hvers vegna rétt er að mati hæstv. ráðherra að leggja niður Þróunarsamvinnustofnun og færa starfsemina inn í ráðuneytið mjög veikur. Því miður hræða sporin og ég fór einmitt yfir það í ræðu minni að hæstv. ríkisstjórn hefur ekki verið að auka framlög í þennan málaflokk eins og þó hafði verið ákveðið hér á Alþingi að gera. Þess vegna veldur það manni bæði vonbrigðum og vekur manni einnig ugg um það hreinlega hver framtíðarsýnin er í þessum málaflokki, og svo aftur skortur á þátttöku hv. þingmanna stjórnarmeirihlutans í umræðunni. Hann vekur mér líka ákveðinn ugg varðandi málaflokkinn, því að líkt og hv. þm. Katrín Jakobsdóttir var hér áðan svo bjartsýn að halda að það væri mögulega vegna þess að þeir treystu sér ekki til að taka þátt í umræðunni vegna þess að þeir væru í rauninni sammála okkur í stjórnarandstöðunni sem höfum hér talað hvað mest. En ég hef raunar talsverðar áhyggjur af því að það gæti hreinlega verið hið gagnstæða, að hv. þingmenn taki ekki þátt í umræðunni vegna þess að þeim finnist þetta hið besta mál og þetta sé bara allt í lagi. Það finnst mér mjög dapurlegt ef svo er og mundi þess vegna svo gjarnan vilja heyra rödd þeirra, sjónarmið þeirra varðandi það.

Já, ég er hrædd um að leggja eigi (Forseti hringir.) Þróunarsamvinnustofnun niður til þess að spara peninga í þann málaflokk.