144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[18:34]
Horfa

Sigríður Ingibjörg Ingadóttir (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég þakka þingmanninum svarið. Ég ætla náttúrlega að viðurkenna að það kemur mér ekki á óvart.

Það er annað atriði hérna sem ég hnýt um því að þegar lögin eru sett árið 2008 um þróunarsamvinnu er ákveðið að Alþingi skuli kjósa sjö manna stjórn til að Alþingi eigi aðkomu að stefnumótun í stofnuninni. Síðan á Alþingi náttúrlega aðkomu að stefnumótun í gegnum þingsályktanir um áætlanir um þróunarsamvinnu. En ég velti fyrir mér hvort þingmaðurinn sjái það fyrir sér núna þegar lagt er til að fimm fulltrúar, alþingismenn, verði í einhvers konar þróunarsamvinnunefnd sem vinni — þetta er stór hópur, um 17 manns sem á að hitta minnst tvisvar á ári og vera til fulltingis um þróunarsamvinnu — hvort þingmaðurinn sjái fyrir sér, ef þetta eru hugmyndir ríkisstjórnarinnar um aðkomu þingsins að ýmsum málaflokkum, að ekki verði bara farið að gera kröfu um að þingmenn verði kosnir í nefndir hingað og þangað inn í ýmis ráðuneyti til að vera í samráði við um ýmsa mikilvæga málaflokka. Hvers konar skilningur á hlutverki þingsins kemur hér fram? Endurspeglar það kannski þann skilning ríkisstjórnarinnar að Alþingi sé fyrst og fremst afgreiðslustofnun og til þess að Alþingi geti haft einhver áhrif þá þurfi að velja í einhverja klúbba úti í bæ?