144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[18:41]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Jú, ég tel að við höfum í rauninni farið kolranga leið inn í þessa umræðu. Hefði ekki verið eðlilegast að byrja á því að fá álit Ríkisendurskoðunar, fá svör við öllum þeim spurningum, 21 spurningu sem hv. þingmenn stjórnarandstöðunnar hafa beðið um í formi skýrslu frá utanríkisráðherra, og bíða í ár eftir úttekt DAC á því hvernig Þróunarsamvinnustofnun Íslands virkar og fara þannig nestuð, með einhvern efnivið, inn í umræðuna? Þegar við erum komin með það veganesti gæti kannski verið tímabært að ræða um einhverjar breytingar því þá höfum við eitthvað handfast um það hvernig kerfið virkar núna og hvaða mögulegu úrbætur þarf kannski að gera.

Svo vil ég reyndar segja að lokum að eflaust er hægt að framkvæma þróunarsamvinnu með ýmsu móti og ná ágætum árangri og við sjáum einmitt að þjóðir fara ólíkar leiðir. Það er hins vegar alveg ljóst að meðan við setjum ekki neina peninga í verkefnið skiptir harla litlu máli hvaða módel við notum til þess að koma þróunarsamvinnunni á leiðarenda. Það hlýtur náttúrlega að skipta talsvert miklu máli að við ráðstöfum fjármagni í verkefnið þó svo við gerum auðvitað þá kröfu að vel sé farið með það. Fjármagnið hlýtur að skipta gríðarlega miklu máli í þessu samhengi. Því miður hefur hæstv. ríkisstjórn ekki ráðstafað peningunum í þetta.