144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[18:46]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Er nema von að hv. þingmaður spyrji til hvers hæstv. utanríkisráðherra sé að fara í þennan leiðangur með framlagningu frumvarpsins. Ég er hrædd um að það sé til þess að auðveldara sé að spara peninga þegar kemur að þessum málaflokki, þ.e. að við Íslendingar, ein af ríkustu og best stæðu þjóðum veraldar, ætlum að draga lappirnar við að veita peninga til þróunarsamvinnu til að minnka fátækt og auka velsæld fólks í fátækustu löndum heimsins. Ég er hrædd um að það sé tilgangurinn með vegferð hæstv. ráðherra.

Nú er líklega enginn betur til þess fallinn að svara þessari spurningu en hæstv. ráðherra sjálfur. Ég vona að í lok þessarar umræðu varpi hann einhverju ljósi á hvað það er sem hann hyggst ná fram með frumvarpinu og svari einhverju af þeim fjölmörgu spurningum sem hér hefur verið varpað fram um þetta mál bæði í dag og í gær. Því miður verður að segjast að þetta er búið að vera svolítið eins og að tala út í tómið sem er svo dapurlegt þegar við ræðum um jafn mikilvægt mál og það hvað við sem þjóð leggjum af mörkum og með hvaða hætti til þess að draga úr sárustu fátækt heimsins.