144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[19:15]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Mér sýnast þau ferðalög sem hv. þm. Ögmundur Jónasson rakti í upphafi máls síns til Parísar hafi skilað honum heim jafnvel hnífskarpari en endranær. Mér fannst hv. þingmaður algjörlega taka utan um kristaltæran kjarna í þessu máli. Hv. þingmaður sagði efnislega að ef fyrir væri lögbundið kerfi sem stjórnvaldið vildi bylta þyrftu að vera mjög ríkar ástæður til þess. Hv. þingmaður orðaði það með þessum hætti: Sönnunarbyrðin sem hvílir á stjórnvaldinu er mjög rík. Ég er algjörlega sammála því. Ég hefði kannski ekki fallið að fótum hæstv. utanríkisráðherra ef hann hefði komið með betri rök, en ég hefði að minnsta kosti verið til í að hlusta. Ég hef bara sannfærst um það í þessari umræðu að rökin eru ekki fyrir hendi. Þess vegna segi ég: Það lögmál sem hv. þingmaður lagði hér fyrir um hvernig standa skyldi að breytingum á er bara gilt. Það er svona, stjórnvaldið verður að færa sterk rök fyrir breytingum ef um er að ræða kerfi sem virkað hefur mjög vel.

Hv. þingmaður þekkir náttúrlega stjórnsýsluna út og inn. Áður en hann kom hér sem þingmaður var hann sigursæll formaður í verkalýðshreyfingu þeirra sem starfa innan stjórnsýslunnar. Hv. þingmaður benti á það sem mörg okkar hafa bent á, að þróunin og ráðleggingarnar frá til dæmis okkar eigin stofnun, Ríkisendurskoðun, hafa allar hnigið að því að færa á milli framkvæmdar annars vegar og eftirlits hins vegar. Finnst hv. þingmanni að það sé yfir höfuð hægt annað en að stappa niður fótum og spyrna gegn frumvarpi sem virðist ganga í allt aðra átt? (Forseti hringir.) Og hefur hv. þingmaður skilning á því að þingmenn hafa ekki verið óskaplega ánægðir með þetta? (Forseti hringir.) Þetta er afturför að mínu mati.