144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[19:18]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Mér finnst fullkomlega eðlilegt að við stöppum niður fæti, eins og hv. þingmaður orðaði það, og setjum þetta mál á ís. Ég tel að setja eigi þetta mál á ís. Við eigum að gefa okkur tíma. Við eigum að eiga beinar samræður við DAC, þróunarnefnd OECD, sem fram hefur komið að ráðast muni í mat á þessum þáttum á jafnræðisgrundvelli á árinu 2016, við eigum að bíða eftir því. Gagnvart starfsfólkinu finnst mér líka eðlilegt að þetta verði sett í bið vegna þess að búið er að sannfæra okkur um að ekki eigi að spara peninga á þessu, það er búið að segja okkur það. Við höfum efasemdir um það sum hver að breytt fyrirkomulag verði til þess að við verðum minna vör við niðurskurð, en við skulum gefa okkur að hæstv. ráðherra sé ekki á þeim buxunum að ráðast í slíkan niðurskurð og að slíkt sé alla vega ekki eitt af markmiðunum með þessum breytingum. Þá spyr ég: Hvað tapast við það að bíða með þetta mál að setja þetta hreinlega á ís? Ég fæ ekki séð að neitt tapist.

Það sem helst virðast vera rökin í þessu máli er að samhæfa þá starfsemi sem heyrir undir þessa regnhlíf, fjölþjóðlega þróunarsamvinnu og tvíhliða þróunarsamvinnu. Nú spyr ég, fyrst hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra hefur komið hér í andsvar: Telur hann að skort hafi á slíka samhæfingu á mikilli þessara tveggja þátta, þ.e. hins fjölþjóðlega samstarfs, sem eru þá væntanlega (Forseti hringir.) Sameinuðu þjóðirnar og aðrar slíkar stofnanir, og tvíhliða þróunarsamvinna?