144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[19:20]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ég held það nú ekki. Ég held að ekkert hafi skort á um það, ekki í tíð fyrri ráðherra og alls ekki í tíð núverandi hæstv. utanríkisráðherra. Það þarf svo sem ekki ræfil minn til þess að staðfesta það. Hv. þingmaður getur til dæmis tekið upp skýrslu nefndarinnar sem hann vísaði til, DAC, og lesið hvað þar segir. Þar segir mjög skýrt á einum stað að samvinnan á millum þessara tveggja verkþátta, þróunarsamvinnan, hafi gengið mjög vel og sérstaklega er tekið fram að starfsmenn þessara tveggja eininga hafi starfað ákaflega vel saman. Það liggur því fyrir að ekkert hefur vantað upp á það. Í sjálfu sér hefur ekki komið neitt fram í umræðunni og kemur ekki fram nema síður sé í greinargerðinni sem fylgir frumvarpinu að þar sé neitt að.

Ég held að í umræðunni núna hafi enginn maður fett fingur út í það sem gerst hefur á þessum vettvangi nema eitt tiltekið atriði. Menn eru auðvitað heldur ósammála stefnu núverandi ríkisstjórnar og við fáum engu um breytt, að hún hefur dregið úr fjárveitingum frá því sem þingið samþykkti. Það er það eina sem á skortir. Ef hv. þingmaður mundi spyrja mig hvaða breytingar ég teldi að þyrfti að gera hefur komið fram af minni hálfu að halda eigi áfram á þeirri braut sem fyrri ríkisstjórn hóf að ábendingum bæði frá útlöndum og frá sjálfstæðum félagasamtökum innan lands í þá veru að auka hlutfallið af ráðstöfunarfénu sem fer til sjálfstæðra félagasamtaka. Ég tel að það væri mjög jákvætt. Ég tel reyndar að það muni gerast á næstu árum og einmitt vegna þess tel ég að það væri ágætt að hafa Þróunarsamvinnustofnun í framtíðinni til þess að deila því út. Það er ekki svo í dag þó að hún sé umsagnaraðili.