144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[19:22]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hingað kom fyrir nokkrum árum framkvæmdastjóri heimssamtaka símamanna, Philip Bowyer, í boði BSRB. Hann talaði gegn einkavæðingu ríkissímafyrirtækja. Ég man að hann sagði: Hvers vegna að gera við það sem ekki er bilað? Ég efast um að það sé uppfinning Philips Bowyers að orða hlutina þannig, maður hefur nú stundum heyrt þetta sagt. En við bíðum náttúrlega eftir því að heyra frá hæstv. utanríkisráðherra hvað það er sem er svo mikið bilað að það sé svona brýnt að ráðast í breytingar á málinu jafnvel þótt vitað sé að stjórnarandstaðan sé almennt mikið á móti frumvarpinu og þessum breytingum, að ýmsir í stjórnarliðinu meiri hlutanum eru líka með efasemdir og að þeir sem starfa við þessi mál, utan ráðuneytisins nota bene, eru almennt mjög gagnrýnir á þessar breytingar. Hvað er það sem er svo mikið bilað að það getur ekki beðið? Ég bara spyr. Við verðum að fá mjög áhrifarík rök fyrir því að ráðast í þessar breytingar. Því endurtek ég: Sönnunarbyrðin á umdeildum breytingum hvílir á þeim sem ætlar að reyna að knýja þær í gegn.