144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[20:00]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er einhver misskilningur hjá hv. þingmanni að það hafi orðið einhver sinnaskipti. Varðandi þær spurningarnar eða þá skýrslubeiðni sem hefur komið fram hefur sú beiðni að sjálfsögðu komið til ráðuneytisins. Þetta er 21 spurning, ítarleg skýrsla sem beðið er um, þannig að það er einfaldlega verið að vinna að því. Síðan spyr hv. þingmaður um sinnaskipti sem ég kom inn á að eru engin sinnaskipti. Það var eitt enn sem hv. þingmaður spurði um, hvað var það aftur? (VBj: Það var þetta samráð.) Já, samráðið. Við höfðum samráð og kynntum þessar hugmyndir fyrir þeim aðilum sem ég taldi upp áðan, þeim sem sinna þessum verkefnum. Ég sagði líka alveg klárt að það voru deildar meiningar um þetta og eru það að sjálfsögðu. Varðandi þær stofnanir sem ég nefndi hér, þar á meðal Ríkisendurskoðun, var þessum aðilum gert viðvart um breytingarnar. Það var fundað óformlega, tek það fram, með Ríkisendurskoðun þar sem málið var í stórum dráttum kynnt. Það komu fram mjög góðar ábendingar sem ég tel að hafi verið brugðist við. Það má eflaust færa fyrir því rök að samráðið hefði getað verið meira eða með öðrum hætti, eitthvað slíkt, en þannig var það alla vega í þessu tilfelli.