144. löggjafarþing — 85. fundur,  25. mars 2015.

alþjóðleg þróunarsamvinna Íslands o.fl.

579. mál
[20:04]
Horfa

Bjarkey Gunnarsdóttir (Vg) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Hæstv. utanríkisráðherra hverfur af vettvangi og hlustar ekki á það sem honum ber að gera. Í gær sakaði hann mig um að tala niður til fræðimanns. Ég held að ég hafi ekki farið svo hörðum orðum um þann fræðimann sem hann byggir allt sitt traust á og þessa skýrslu eins og hann lét falla í lok síns máls og hv. þm. Össur Skarphéðinsson fór aðeins yfir áðan.

Ég tek undir með hv. þm. Oddnýju G. Harðardóttir, það er óásættanlegt að ráðherra ríkisstjórnarinnar leyfi sér með þessum hætti að tala svona niður til og gera lítið úr fræðimanni íslensks samfélags sem mikið er leitað til á Íslandi, að það þyki bara alveg sjálfsagt í ræðustóli Alþingis að utanríkisráðherra segi að það sé bara ekkert að marka það sem sagt er eða skrifað af því að viðkomandi sé í einhverjum tilteknum pólitískum flokki.

Þetta er ekki ásættanlegt og ég tek undir að þetta verður að taka fyrir í forsætisnefnd.