144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

fyrirspurnir til forsætisráðherra.

[10:33]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Í mínum þingflokki hefur verið ítrekuð umræða um það hversu erfitt er að fá hæstv. forsætisráðherra til að svara fyrir um stjórnarmálefni. Mér féllust satt að segja hendur í gær þegar ég fór yfir þetta mál og vil því beina orðum mínum til hæstv. forseta. Mér virðist hæstv. forsætisráðherra aðeins hafa svarað einni af sex fyrirspurnum sem til hans hefur verið beint á þessum vetri. Frá mínum þingmönnum eru að minnsta kosti þrjár fyrirspurnir sem allar eru löngu fallnar á tíma. Formaður Samfylkingarinnar, Árni Páll Árnason, hefur átt óþægilega fyrirspurn til forsætisráðherra frá 5. desember sl. Forsætisráðherra á að svara að jafnaði innan tveggja vikna en nú eru að verða komnir fimm mánuðir.

Elsta fyrirspurnin er frá 13. nóvember. Við erum í heilt ár og rúmlega það búin að reyna að fá forsætisráðherra til að ræða um verðtryggingu. Hér liggur inni beiðni um sérstaka umræðu um verðtryggingu frá Sigríði Ingibjörgu Ingadóttur frá því í janúar og ég skil vel að hæstv. forsætisráðherra óttist það að ræða um stöðu verðtryggingarinnar og vilji ekki ræða stöðu húsnæðissamvinnufélaganna en það verða einhverjar reglur að vera í gildi, (Forseti hringir.) virðulegur forseti, og tveggja vikna frestur samkvæmt þingsköpum getur ekki orðið 20 vikur eins og er gagnvart hv. þm. Katrínu Jakobsdóttur.