144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

staða svæða í verndarflokki.

[10:41]
Horfa

umhverfis- og auðlindaráðherra (Sigrún Magnúsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég þakka brýninguna og ætla að taka við henni. Við öll sem sitjum hér inni vitum að við þurfum miklu meira fjármagn til verndar náttúrunni. Frumvarp liggur inni sem ég vona að þingheimur afgreiði sem allra fyrst um að hægt verði að koma á gjaldtöku til að við getum deilt út meira fjármagni til verndar okkar svæðum. Við sáum hryllilegar myndir í sjónvarpinu í gærkvöldi af Geysissvæðinu. Þar þarf sannarlega að taka til höndum. Eins og ég segi vona ég að við getum samþykkt sem fyrst gjaldtöku sem sér okkur fyrir fé sem við síðan útdeilum til verndar náttúru Íslands.

Hugur minn stendur mjög til þess að reyna sem allra fyrst að vernda eins og Þjórsárverin. Ég er með vinnu í gangi varðandi það að reyna að koma með einhverja raunhæfa línu (Forseti hringir.) varðandi þá verndun, svo ég svari að einhverju leyti.