144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

efling samtakamáttar þjóðarinnar.

[10:48]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (Bf):

Virðulegur forseti. Enn og aftur fara ráðherrar í ríkisstjórninni að tala um síðasta kjörtímabil þegar þeir eru spurðir hnitmiðaðra spurninga (Gripið fram í.) um þetta kjörtímabil. Ég sagði áðan að við blasti á síðasta kjörtímabili að það voru stór deilumál. Ég sagði áðan að ég væri einmitt sammála því markmiði sem sett er fram í stefnuyfirlýsingu ríkisstjórnarinnar að vinna þurfi markvisst að því að reyna að ná sáttum í stórum deilumálum. Ég spyr: Hvernig gerir ríkisstjórnin það? Það blasir við mér að hér streyma inn, ja, þau streyma reyndar ekki inn, en hér koma einstaka sinnum inn þingmál (Gripið fram í.) frá ríkisstjórninni og þau eru flest því marki brennd að í málum eins og til dæmis í þróunarsamvinnu, þar sem er ríkur vilji þingmanna til að gera vel, er ekkert samráð. Af hverju ekki?

Og í kjaramálum, hvert er framlag ríkisstjórnarinnar þar til að reyna að koma einhverri ró á vinnumarkaðinn? Það er ótrúlegur áfellisdómur til dæmis yfir aðgerð eins og leiðréttingunni, 80 milljarðar settir í það (Forseti hringir.) að bæta á einhvern hátt hag heimilanna, þó að deila megi um það, og samt er stríðsástand á vinnumarkaði. Það er ótrúlegur áfellisdómur. Og stjórnarskrármálið og fiskveiðimálið, ríkisstjórnin sjálf nær ekki einu sinni sáttum í sjávarútvegsmálum og við eigum algjörlega eftir að sjá hvað verður um stjórnarskrármálið og hvernig verður unnið á því. Það er fullt af fólki, þar á meðal ég, ósátt við það hvernig fór fyrir því máli á síðasta kjörtímabili.