144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

meðferð gagna um skattaskjól.

[10:55]
Horfa

Helgi Hjörvar (Sf):

Virðulegur forseti. Auðvitað er skrýtið að hæstv. fjármálaráðherra hlaupi til og vilji grið fyrir þessa aðila loksins þegar við erum búin að fá gögnin í hendurnar, sérstaklega þegar hann boðar það morguninn eftir að hann lýsir því yfir í fréttum Ríkisútvarpsins að ríkisstjórnin muni engin grið gefa — orðrétt, hæstv. fjármálaráðherra — í þessum málum.

En ég spurði ekki um það. Ég spurði hvers vegna hæstv. fjármálaráðherra hefur ekki sótt skýrar og ótvíræðar lagaheimildir til að nota þessi gögn þegar hans eigin þingmaður hefur á opinberum vettvangi vefengt það að löglegt verði að nota þau og að öllum er ljóst að þeir gríðarlegu fjármunir sem þessir aðilar munu kosta til verjenda fyrir dómstólum munu nota þetta atriði, lagalega óvissu og illa fengin gögn, eins og þeir mögulega geta. Í þinginu er boð frá stjórnarandstöðunni um að greiða sérstaklega fyrir því að það komi skýrar og ótvíræðar lagaheimildir þannig að það verði ekki með lagaklækjum, formsatriðum eða öðru slíku hægt að spilla (Forseti hringir.) fyrir málatilbúnaði á hendur þeim sem hafa falið eignir sínar á aflandseyjum (Forseti hringir.) og í skattaskjólum.

Ég ætla ekki að hafa neina, hæstv. ráðherra, hófstillta eða sanngjarna umræðu um þá aðila. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)