144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

meðferð gagna um skattaskjól.

[10:57]
Horfa

fjármála- og efnahagsráðherra (Bjarni Benediktsson) (S):

Herra forseti. Ég hef þegar svarað spurningunni. Svarið liggur í því að þeir aðilar innan stjórnkerfisins sem helst bera ábyrgð á rannsókn og saksókn í þessu málum hafa ekki kallað eftir lagabreytingum, hafa ekki rekið sig á að lagaumhverfið á Íslandi sé til sérstakra trafala. Það er ástæðan fyrir því að hér er ekki komið fram frumvarp um að umbylta lagakerfinu að þessu leytinu til.

Það er síðan hluti umræðunnar um þá hluti að velta fyrir sér hversu langt væri rétt að ganga, hversu langt aðrir ganga í þeim efnum, en það stendur sem ég hef áður sagt að við höfum varið fé til skattrannsókna til að tryggja að enginn komist undan með það að gegna skyldum sínum og axla sína ábyrgð á því að greiða skatta á Íslandi lögum samkvæmt og taka þannig þátt í samfélagslegum kostnaði af því að halda uppi því fyrirmyndarsamfélagi sem við viljum byggja hér upp. Það hefur ekkert breyst í þeim efnum. Og ég frábið mér allar ásakanir um að nú sé við völd (Forseti hringir.) ríkisstjórn og í fjármálaráðuneytinu ráðherra sem ætli að veita slíkum aðilum (Forseti hringir.) eitthvert skjól. Það er alrangt og algjör öfugmæli.