144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

alþjóðleg öryggismál o.fl.

628. mál
[11:22]
Horfa

Steinunn Þóra Árnadóttir (Vg):

Hæstv. forseti. Við ræðum um frumvarp til laga um breytingu á lögum er varða alþjóðleg öryggismál o.fl. Þetta frumvarp má kannski segja að sé úr ýmsum áttum þar sem lagðar eru til breytingar á ýmsum lögum en þær eiga það þó allar sameiginlegt að taka til hernaðar eða hernaðartengdra mála með einhverjum hætti. Í mörgum tilvikum er aðeins verið að festa í sessi eða umorða ákvæði sem þegar eru í gildi. En þetta eru ákvæði sem ég og félagar mínir í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum í sumum tilvikum ósammála eða setjum í það minnsta stór spurningarmerki við.

Ég ætla að byrja á upphafinu, í I. og II. kafla frumvarpsins eru lagðar til breytingar á lögum um loftferðir, nr. 60/1998, með síðari breytingum, þar sem fjallað er um aðgang erlendra ríkisloftfara og breytingar á lögum um vaktstöð siglinga, nr. 41/2003, með síðari breytingum þar sem fjallað er um aðgang erlendra ríkisskipa að íslensku yfirráðasvæði.

Mér finnst í fyrsta lagi svolítið sérkennilegt, þó að það kunni að vera bara tæknilegt, að nota orð eins og ríkisflugfar sem ég get ekki séð annað en að sé hálfloðmullulegt orðalag um það sem í daglegu tali kallast herflugvélar, sérstaklega ef litið er til þess að í skýringartexta er skýrt að lögunum er bara ætlað að ná til ríkisflugfara í hernaðarlegum tilgangi sem samkvæmt mínum skilningi eru ekki annað en herflugvélar.

Í greinargerð segir:

Framangreint ákvæði ber að skilja þannig að það eru not flugfars sem skilgreina stöðu þess en ekki eignarrétturinn. Ef til dæmis flugfar í ríkiseigu er notað til hefðbundinna farþegaflutninga gilda hinar almennu reglur um borgaralegt flug. Ríkisflugfar getur verið borgaralegt eða hernaðarlegt, þar með talið far sem er ætlað til toll- eða löggæslu.

Síðar segir:

Hernaðarflugfar er hvers konar flugfar sem er undir herstjórn erlends ríkis eða alþjóðastofnunar.

Í 1. gr. þessa lagafrumvarps segir svo, með leyfi forseta:

„Ráðherra ákveður á hvaða stöðum erlent ríkisloftfar getur átt viðkomu og hvernig ferðum þess skuli háttað innan íslensks yfirráðasvæðis.“

Í II. kafla, 2. gr., er sambærilegur texti en sem fjallar þá um aðgang erlendra ríkisskipa. Þar segir, með leyfi forseta:

„Ráðherra ákveður á hvaða stöðum erlent ríkisskip getur átt viðkomu og hvernig ferðum þess skuli háttað innan íslensks yfirráðasvæðis.“

Hæstv. utanríkisráðherra tók það fram í máli sínu í upphafi að ekki sé verið að breyta neinum heimildum sem þegar eru fyrir hendi, einungis sé verið að uppfæra eða nútímavæða orðalag. Þá get ég ekki séð annað af því hvernig þetta ákvæði er orðað í frumvarpinu en að það sé nokkuð ljóst í hvaða tilgangi frumvarpið er flutt. Ég get ekki betur séð að það sé einhvers konar mótvægi við því að fyrrverandi meiri hluti í borginni, meiri hluti Besta flokks og Samfylkingar með Jón Gnarr, fyrrum borgarstjóra, í broddi fylkingar, talaði mjög skýrt um að vilja banna hvers kyns heimsóknir herskipa í hafnir í Reykjavík sem og lendingu herflugvéla á Reykjavíkurflugvelli nema um neyðartilvik væri að ræða.

Það kann vel að vera að þetta hafi fyrst og fremst verið pólitísk yfirlýsing hjá fyrrverandi borgarstjóra en mér finnst engu að síður ljóst að með þessu frumvarpi sé verið að gera sveitarfélögum erfiðara fyrir að hafa sjálfstæðar skoðanir á því og geta ákveðið sjálf að hvaða marki hernaðarfarartæki fá að fara um þeirra svæði og haft þannig sjálfstæða stefnu í því hvers konar starfsemi sveitarstjórnir vilja hafa á sínu landi af því að hér er alveg skýrt tekið fram að það sé ráðherrann sem ákveði þetta en ekki sveitarstjórnirnar. Það má kannski segja að þarna hafi verið togast á um það hvað sveitarstjórnir geti sjálfar ákveðið þegar kemur að heræfingum eða geymslu vopna á þeirra landi og þá kannski fyrst og fremst geymslu kjarnorkuvopna. Þetta er alls ekki ný umræða og hún er heldur ekkert einskorðuð við Ísland. Erlendis hefur víða skapast sú hefð að sveitarstjórnir leggi málstað friðarsinna lið með því að friðlýsa sig gegn geymslu og meðferð kjarnorkuvopna. Ég tek kjarnorkuvopn sem dæmi en þetta getur auðvitað gilt um hvaða önnur vopn sem er. Þessa afstöðu sveitarfélaga má í raun rekja til fyrri hluta níunda áratugarins þegar kjarnorkuógnin var í hámarki þar sem risaveldin settu upp skamm- og meðaldrægar eldflaugar víða á meginlandi Evrópu auk þess sem vígvæðing hafanna var í fullum gangi með bæði kjarnorkuvopnabærum skipum og kafbátum. Í sumum tilvikum var einungis um táknrænan gjörning að ræða hjá sveitarstjórnum en það hafa líka verið dæmi þess að meiri alvara hafi fylgt málum þar sem borgaryfirvöld hafa hreinlega reynt að koma í veg fyrir flutning vopna af þessu tagi um sín svæði.

Þessi umræða teygði anga sína hingað til Íslands. Árið 2000 gerðu alþjóðlegu samtökin Abolition 2000 stórátak og hvöttu borgar- og bæjarstjórnir um allan heim til þess að friðlýsa sín svæði algjörlega gegn kjarnokuvopnum en frumkvæðið að þessu átaki er komið frá borgarstjórum japönsku borganna Hírósíma og Nagasaki.

Á Íslandi hafa öll sveitarfélögin á landinu að þremur undanskildum skrifað undir friðlýsingu af þessu tagi. Það er raunar skemmtilegur, ég veit ekki hvort það er hægt að tala um skemmtilegt í þessu samhengi, öllu heldur áhugaverður vinkill inn í umræðuna um hvaða vald liggi hjá sveitarstjórnum og hvaða vald hjá ríkisvaldinu, að þegar beiðni var send til Reykjanesbæjar á sínum tíma um það hvort þau vildu ekki taka þátt í þessu friðlýsingarverkefni vísaði Reykjanesbær erindinu til utanríkisráðuneytisins. Bæjarstjórn taldi greinilega að utanríkisráðuneytið ætti frekar að svara spurningunni um hvort sveitarfélagið gæti friðlýst sig gegn kjarnorkuvopnum. Þetta var árið 2008 þegar hv. þm. Össur Skarphéðinsson var utanríkisráðherra og skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu, Þórir Ibsen, svaraði erindi Reykjanesbæjar, en í niðurlagi í svari ráðuneytisins segir, með leyfi forseta:

„Í fylgigögnum með bréfi Reykjanesbæjar kemur fram að um 100 sveitarfélög á Íslandi hafi kosið að skrá sig á lista yfir friðlýst sveitarfélög. Ekki verður annað séð en að slík þátttaka sé hverju sveitarfélagi í sjálfsvald sett.“

Þarna kemur sá skilningur frá ráðuneytinu að sveitarfélögin hafi ansi mikið um það að segja sjálf hvaða stefnu þau vilji taka þegar kemur að vopnum eða vopnageymslu á landi þeirra. Mér finnst þetta mikilvægt innlegg í þá umræðu að ráðherra geti ákveðið ferðir hernaðartækja um íslenskt yfirráðasvæði. Svo dæmi sé tekið er tiltölulega auðvelt að takmarka útbreiðslu eða getu herskipa til að valda óskunda. Hins vegar liggur fyrir yfirlýsing um að sveitarfélögunum sé í sjálfsvald sett hvort þau banni kjarnorkuvopn í sínu landi en slík vopn virða ekki beinlínis landamæri, hvað þá mörk á milli einstakra sveitarfélaga.

Ég hef lengi verið þeirrar skoðunar að það sé mjög mikilvægt að sveitarfélögin hafi sjálf talsvert mikið að segja. Kannski er skemmtilegt að minna á það í þessu samhengi að ég hef þegar lagt fram frumvarp, sem ég hef þó ekki enn getað mælt fyrir á Alþingi, sem fjallar um breytingar á lögum um mat á umhverfisáhrifum þar sem ég legg það einmitt til að heræfingar, þar með talið lágflugsæfingar utan varnar- og öryggissvæða, verði felldar undir mat á umhverfisáhrifum, m.a. í samræmi við það að fram hafa komið óskir hjá einstökum sveitarstjórnum um að geta staðið gegn heræfingum á landi sínu.

Ég sé að tíminn er að hlaupa frá mér en vil alveg að lokum segja að þó að ég hafi haldið mig við I. og II. kafla frumvarpsins set ég líka stór spurningarmerki við bæði III. og IV. kafla þess þar sem fjallað er um rýmkaðar heimildir utanríkisráðherra til að beita þvingunaraðgerðum og hvað við getum selt til (Forseti hringir.) vopnaframleiðslulanda innan Evrópska efnahagssvæðisins. Þar sem tími minn er búinn kem ég mögulega að þessu í síðari ræðu á eftir.