144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

alþjóðleg öryggismál o.fl.

628. mál
[11:37]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er ekki beint andsvar, mig langar bara út af umræðunni um sveitarfélögin að ítreka það sem ég sagði áðan, það er ekkert í þessum lögum sem breytir því sem sveitarfélögin geta gert í dag. Það er alls ekki verið að taka neinn rétt eða víkja frá því sem áður hefur verið, alls ekki, það er ekki verið að gera neitt þess háttar. Það er fyrst og fremst verið að uppfæra og skýra og um leið styrkja þær heimildir sem fyrir eru, það er ekki verið að breyta þeim á neinn hátt.

Varðandi takmarkanir, þvinganir og þess háttar, t.d. þegar kemur að því að framleiða hluti sem lúta að tvöföldu notagildi, í vopn, eitthvað þess háttar, er einmitt verið að styrkja heimild ráðherra til að setja takmarkanir, banna eða grípa inn í. Það er ekki verið að veikja þær heimildir sem fyrir eru í dag heldur skýra og styrkja. Við vitum að það er sífelld þróun í framleiðslu á ýmsum búnaði sem getur haft tvöfalt notagildi, getur bæði verið notaður í borgaraleg verkefni og hernaðarleg, og það er talið mikilvægt að þessi heimild sem er til staðar í dag sé skýr og styrkari.

Það er ekki mikið um framleiðslu á einhverjum slíkum tækjum, hugbúnaði eða einhverju slíku á Íslandi. Það er þó til og þetta lýtur aðallega að eignarhaldi, að þeir sem fjárfesta eða eiga þessi fyrirtæki þurfi að vera að stærstum hluta í íslenskri eigu o.s.frv. Það er verið að skýra hlutina og reyna að veita okkur betri tól til að halda utan um þetta.