144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

alþjóðleg öryggismál o.fl.

628. mál
[11:46]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf):

Herra forseti. Það er ekki á hverjum degi sem við ræðum á Alþingi frumvörp sem koma að öryggismálum eða varnarmálum og kemur dálítið flatt upp á marga að sjá enda langt frá íslensku þjóðarsálinni, hernaðarbröltið, ég held að óhætt sé að segja það. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu neitt sérstaklega. Að mörgu leyti get ég tekið undir hreint ágæta og á köflum vel lærða ræðu hv. þm. Steinunnar Þóru Árnadóttur. Mig langar til að leggja aðeins inn við 1. umr. nokkra hluti sem við ættum að velta fyrir okkur í meðferðinni.

Hér er um að ræða skýringu, eins og hæstv. utanríkisráðherra kom inn á, að sumu leyti á því hvernig hlutum hefur verið komið fyrir hingað til. Ég sakna þess aðeins, og er á svipuðum slóðum og hv. þm. Steinunn Þóra Árnadóttir, að mér finnst vanta inn í kaflann um loftferðir og siglingar að það sé að einhverju leyti tekið tillit til sjálfsákvörðunarréttar sveitarfélaga. Á Íslandi er það svo að fyrir utan Keflavíkurflugvöll, eftir því sem ég best veit, sem er að einhverju marki skilgreindur sem hernaðarmannvirki eru samgöngumannvirki okkar ekki hernaðarmannvirki. Ég veit ekki til þess að hér séu neinar hafnir til að mynda sem eru sérstaklega skilgreindar sem hernaðarhafnir. Það þýðir að þau hernaðartæki, hvort sem eru fljúgandi eða siglandi sem koma hingað til lands, munu nota borgaralega aðstöðu, hvort sem er á flugvöllum eða í höfnum. Því þætti mér fara betur á því að það væri í það minnsta nikkað til þess í frumvarpinu eða greinargerðinni að leyfi til notkunar á þessum mannvirkjum sé í samráði við eða að minnsta kosti í samtali við sveitarfélögin sem hafa stjórn yfir þessum mannvirkjum eða þá undirstofnunum eins og hafnarstjórnum viðkomandi sveitarfélaga. Ég sakna þess örlítið og er þá á svipuðum nótum og hv. þingmaður á undan mér að vísa til þess að mörg sveitarfélög á Íslandi hafa mótað sér sérstaka stefnu þegar kemur að ákveðnum vopnum, bæði kjarnorkuvopnum en sömuleiðis sér maður fyrir sér ólögleg vopn á borð við efnavopn eða jafnvel umdeild vopn eins og klasa- og fosfórsprengjur o.s.frv. Í raun ætti það að vera í fullu samræmi við utanríkisstefnu Íslands, friðelskandi og herlauss lands, í það minnsta að taka tillit til slíkra yfirlýsinga og stefnu í sveitarfélögunum.

Ég geri líka smáreikning fyrir því að hér er utanríkisráðherra, eða þeim ráðherra sem fer með utanríkismál eins og það er orðað, falið ákvörðunarvald en ekki vitnað sérstaklega til þess að það eigi að vera í samræmi við utanríkisstefnu Íslands. Þetta er kannski smáatriði í orðalagi en mér finnst það skipta miklu máli út frá því að Ísland hefur sérstöðu. Ef ég man rétt er Ísland annað eða þriðja fjölmennasta herlausa land á jörðinni og hefur ríka og langa hefð fyrir því að vera herlaust og fyrir því að tala almennt fyrir friði og friðsamlegum lausnum á heimsvísu. Í því samhengi, af því að þetta er að mörgu leyti eitt af hryggjarstykkjunum í okkar utanríkispólitík og utanríkisstefnu til langs tíma og hefur verið, held ég að það mundi að mörgu leyti styrkja að sérstaklega væri vitnað til utanríkisstefnunnar.

Þetta eru aðallega þeir punktar sem ég vildi koma með í sambandi við III. kaflann um þvingunaraðgerðir og lög um eftirlit með þjónustu og hlutum sem geta haft hernaðarlega þýðingu. Ég held að um margt sé ágætt að skýra þá kafla betur. Það er kannski til marks um friðarást okkar Íslendinga og íslenskra stjórnvalda að löggjöf okkar er að mörgu leyti ekki mjög skýr og að sumu leyti orðin kannski dálítið gamaldags þegar kemur að þessum málaflokkum.

Fyrst og fremst vildi ég gera grein fyrir þessum punktum og mér finnst mikilvægt að þeir fylgi inn í framhald vinnunnar.