144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

alþjóðleg öryggismál o.fl.

628. mál
[11:52]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Hv. þm. Óttarr Proppé er þekktur fyrir að hafa djúplægan húmor og ég tek það svo að það sé ekki síst af írónískum hvötum sem hv. þingmaður leggur á það áherslu að það sé brýnt að í þessu frumvarpi sé vísað til utanríkisstefnu Íslands þannig að ljóst sé að sérhver angi ríkisgeirans tali einni röddu. Ég er þá að vísa til þess að við höfum nú eytt tveimur dögum í að ræða nauðsyn þess eða nauðsynjaleysi að leggja niður heila ríkisstofnun til þess beinlínis að utanríkisstefna Íslands sé túlkuð með einni röddu.

Gamanlaust er ég þeirrar skoðunar að það sem hv. þingmaður setur fingur sinn í, aðallega það að ekki væri nægilega skýrt hvort sveitarfélög hefðu áfram sinn rétt og svigrúm til að lýsa yfir hvaða stefnu þau hafi í þessum efnum, sé mál sem við í utanríkismálanefnd getum skoðað. Ég tel vel hægt að hnykkja á því og tel það þarft. Í áliti sem nefndin gefur frá sér, eftir atvikum minnihlutaáliti ef meiri hlutinn vill ekki taka undir það, tel ég að það þurfi að vera algjörlega skýrt að sveitarfélögin hafi sinn rétt til að lýsa yfir með hvaða hætti þau vilja haga stefnu sinni í þessum málum. Ég tel hins vegar ekki eins og lögum var háttað í dag að það geti geti orðið annað en yfirlýsing af þeirra hálfu. Í það minnsta þyrfti þá að breyta verulega lagalegum fyrirmælum. Ég vek hins vegar eftirtekt á því að stefna Íslands hefur verið skýr í þessum efnum frá því að Steingrímur Hermannsson var forsætisráðherra 1985 og gaf skýra yfirlýsingu sem þáverandi utanríkisráðherra tók að fullu undir. Það er sú yfirlýsing sem við höfum alltaf vísað til og ég held þess vegna að enginn þurfi að ganga gruflandi að því (Forseti hringir.) hvaða afstöðu Ísland hefur um för kjarnorkuknúinna herskipa eða -væddra um lögsöguna.