144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

alþjóðleg öryggismál o.fl.

628. mál
[11:54]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir, ja, ég kalla það eiginlega ekki fyrirspurn en punktana og ég vil bara segja í ljósi orða hans um gamansemi mína að hv. þingmaður getur verið allra kersknastur þingmanna. Við deilum gildi skopskynsins þegar kemur að umræðunni.

En þegar ég ræddi um samhengið við utanríkisstefnu Íslands í þessu samhengi var mér ekki bara skop í hug, eiginlega alls ekki. Ég meina að það mundi í raun styrkja greinina að það væri skýrt að verið væri að vísa til utanríkisstefnu Íslands, ekki síst á þeim grundvelli að hún endurspeglar friðsemd og herleysi Íslands og hefur lengi gert, eins og hv. þingmaður benti á. Ég sá þetta fyrir mér meira sem möguleika til að styrkja greinina en hitt.

Þegar kemur að sjálfsákvörðunarrétti sveitarfélaga held ég að við hv. þingmaður séum sammála. Mér er ofarlega í huga réttur sveitarfélaganna til að lýsa yfir ákveðnum stefnum. Við höfum því miður reynslu af því að mannvirki á Íslandi hafa verið notuð í tilgangi sem er í hæsta lagi vafasamur, eins og til fangaflutninga, þannig að það mætti örugglega styrkja einhvern veginn skilyrði til að veita leyfi o.s.frv. Samráð við sveitarfélög getur líka verið hreinlega spurning um að hafa eitthvað um það að segja hvar í mannvirkjum, t.d. höfnum, skipum er komið fyrir.