144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

alþjóðleg öryggismál o.fl.

628. mál
[11:59]
Horfa

Óttarr Proppé (Bf) (andsvar):

Herra forseti. Ég get ekki annað en tekið undir með hv. þingmanni. Kannski einmitt í ljósi umræðna síðustu daga og vikur í tengslum við utanríkismál, umræðna bæði á þingi og opinberum vettvangi, um gildi þingsályktana þegar kemur að utanríkismálum, hvernig mati á því hvernig samráði við Alþingi er háttað, held ég að það sé mikilvægt fyrir okkur í utanríkismálunum að við skýrum málin betur ef eitthvað er. Við skulum fjölga og lengja (Gripið fram í: Ræðutíma.) þá gadda sem við ætlum að slá í svo það sé víst að þeir haldi. Ef við viljum slá í gadda ákveðið ferli, ákveðna hefð fyrir því að utanríkisstefna Íslands standi — ágætt dæmi er yfirlýsing frá 1985 sem hv. þingmaður vísaði til — til að þetta haldi og standi þrátt fyrir kosningar og að ríkisstjórnir komi og fari í millitíðinni held ég að það sé mikilvægt að við styrkjum þetta í lögum og frumvörpum sem við leggjum fram. Í því samhengi vil ég nefna sérstaklega að hér er vissulega staðfest samráðsskylda við utanríkismálanefnd Alþingis. Það er vel og það er ákveðin staðfesting eins og hv. þingmaður nefndi á hefð og reglu, en hér kemur þó ekki fram frekar en fyrri daginn nákvæmlega hvenær það samráð á að fara fram, (Forseti hringir.) hvort það á að fara fram fyrir fram eða eftir á.