144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

alþjóðleg öryggismál o.fl.

628. mál
[12:01]
Horfa

Össur Skarphéðinsson (Sf):

Herra forseti. Hv. þm. Óttarr Proppé vék undir blálok ræðu sinnar að því sem ég tel að sé einn af hornsteinunum í starfi Alþingis, þ.e. að Alþingi komi að því saman með framkvæmdarvaldinu að móta utanríkisstefnuna. Ég er hv. þingmanni algjörlega ósammála þegar hann segir að einhver vafi leiki á því hvort samráð við utanríkismálanefnd eigi að fara fram fyrir eða eftir ákvörðun. Það er enginn vafi um það í mínum huga. Samráð er ekki samkvæmt hefðbundnum skilningi Íslendinga á merkingu þess orðs til staðar nema það sé gagnvirkt, nema það sé framið með þeim hætti að stjórnvaldið, framkvæmdarvaldið hlusti á þá þingmenn allra flokka sem sæti eiga í utanríkismálanefnd og fái viðhorf þeirra og síðan eftir atvikum taki mið af því.

Ég get fallist á að kannski sé erfitt ef skoðanir eru skiptar innan utanríkismálanefndar og þings að segja beinlínis að ríkisstjórn þurfi samkvæmt orðanna hljóðan í stjórnarskrá að taka afdráttarlausa afstöðu út frá því. Ég tel hins vegar að eins og stjórnmálin hafa þróast og skilningurinn á lýðræðinu sé ríkisstjórn pólitískt mjög erfitt ef ekki ómögulegt að fara gegn vilja stórs hluta þjóðarinnar ef hann hefur verið tjáður á sterkan hátt, hvað þá ef líka er um að ræða stóran minni hluta innan þings sem er svipaðrar skoðunar og téður meiri hluti þjóðarinnar. Þetta vildi ég segja algerlega skýrt, þetta er mín skoðun.

Það má kannski velta því fyrir sér hvort það sé af illri nauðsyn sem því skilyrði er skotið inn í lögin. Eins og hv. þingmaður veit þótt hann hafi ekki verið hér lengi, hann hefur eigi að síður komið að mörgum frumvörpum og vafalítið þurft að grufla aftur í söguna til að feta sig fram til niðurstöðu með því að skoða lög sem í gildi eru, þá er þetta sjaldgæft. Það er þó ekki einsdæmi. En ég fagna þessu frumvarpi og mér finnst það gott framtak hjá hæstv. utanríkisráðherra. Ég er þeirrar skoðunar að sérstaklega af því að dregið hefur verið í efa af hálfu ríkisstjórnarinnar hvað felst í samráði við utanríkismálanefnd sé gott að það sé undirstrikað á þennan hátt og það á að gera sem víðast. Ég vek þó eftirtekt á því að í tíð ýmissa fyrri ríkisstjórna hefur verið um alveg skýlaus brot á svipuðum ákvæðum að ræða, kannski ekki efnislega þeim sem eru núna í lögum um þingsköp en vissulega höfðu þau að mati margra sömu merkingu. En þetta hefur verið skýrt með síðari breytingum á þingskapalögum og ég held að algerlega ljóst sé hver vilji þingsins er um það hvernig þetta ákvæði er nýtt.

Mér finnst skiljanlegt að í umræðu af þessu tagi, þar sem verið er að ræða um stýringu framkvæmdarvaldsins á bæði erlendum loftförum og erlendum ríkisskipum um efnahagslögsöguna eða yfirráðasvæði Íslands, veki menn upp það sem hefur alltaf verið einn af grundvallarþáttunum varðandi umræðu hér um utanríkismál og er afstaða okkar til kjarnorkuvopna. Það er þannig að þó að sveitarfélögin geti ekki mótað utanríkisstefnu íslenska ríkisins geta þau eigi að síður tjáð vilja sinn. Ég minnist þess að þegar ég skoðaði hvernig sveitarfélög á Íslandi höfðu tjáð afstöðu sína með formlegum samþykktum á vettvangi sínum var ég dálítið hissa. Það kom upp úr dúrnum þá, að ég held, að um það bil 74 sveitarfélög hefðu lýst yfir kjarnorkuvopnaleysi sínu. Þau höfðu tjáð það með einarðri samþykkt að þau vildu ekki að innan sinna vébanda væru neins konar tæki eða tól sem væru drifin, knúin af kjarnorku eða til þess ætluð að fremja einhvers konar meiðingar eða beita í stríði. Ef skoðað eru hversu margir búa innan þessara 74 sveitarfélaga eru það 94% þjóðarinnar. Á Íslandi eru einungis 17 þúsund manns, eða voru fyrir nokkrum árum þegar ég var í utanríkisráðuneytinu, sem búa utan kjarnorkuvopnahlutlausra svæða. Þetta er mjög merkilegt. Það er hins vegar ekki í ósamræmi við þá stefnu sem ríkisstjórnir hafa flutt þó að vissulega sé hún kannski ekki að öllu leyti skýr, svo notað sé hið vestfirska orðtak sem ég og hv. þm. Óttarr Proppé veltum stundum á milli okkar er hún kannski ekki algerlega slegin í gadda, eins og menn segja á Ströndum.

Ég vil samt vekja eftirtekt á því að allar götur frá 1985 þegar þá var hér á dögum merkur stjórnmálaforingi, Steingrímur Hermannsson og annar við hlið hans sem utanríkisráðherra, Geir Hallgrímsson, hefur stefna íslenskrar ríkisstjórnar í þeim efnum legið algerlega skýr fyrir. Hún er sú að kjarnorkuvopn séu ekki geymd hér á landi og það tekur líka til herskipa í íslenskri lögsögu. Í samræmi við þá stefnu liggur algerlega fyrir af hálfu utanríkisráðherra, sem ekki kemur úr Framsóknarflokki, Samfylkingu eða vinstri vængnum heldur úr Sjálfstæðisflokknum, að það er skoðun Sjálfstæðisflokksins að sigling herskipa með kjarnorkuvopn um íslenska lögsögu er óheimil og þá jafnframt koma þeirra til hafna á Íslandi. Þetta var afstaða Geirs Hallgrímssonar, utanríkisráðherra Sjálfstæðisflokksins, og þá yfirlýsingu gaf hann 16. apríl 1985. Til hennar hefur mörgum sinnum verið vísað. Á þeim tíma og mörgum sinnum síðar var gengið eftir að það yrði útfært ítarlegar en Geir Hallgrímsson og ýmsir sem á eftir komu sögðu skýrt að þeir teldu ekki þörf á því að útfæra þá stefnu nánar. En stefnan er fyrir hendi.

Ef hv. þingmenn telja nauðsyn á því að setja inn í frumvarpið eða inn í álit til skýringar þá afstöðu sína eða þingsins að frumvarpið, ef að lögum verður, meini hvorki né tálmi sveitarfélögum landsins að samþykkja ályktanir af þeim toga sem ég vísaði til ætti það að vera framkvæmdarvaldinu að meinalausu. Það er einfaldlega í samræmi við utanríkisstefnu Íslands. Þetta fannst mér nauðsynlegt að kæmi hér skýrt fram og að draga inn í umræðuna fyrri yfirlýsingar sem aldrei hefur verið breytt. Svo að þetta atriði að minnsta kosti ættum við þrjú okkar sem höfum verið að ræða þessi mál og sitjum öll í utanríkismálanefnd væntanlega að geta sannfært ágæta félaga okkar úr stjórnarliðinu um, þá sem kynnu, ég ætla ekkert að gera þeim upp neinar skoðanir en þá sem kynnu hugsanlega af íhaldssömum tærleika sálar sinnar að reisa einhverjar skorður við því.

Að öðru leyti er ég þeirrar skoðunar að Ísland verði að hafa lagaramma sem gerir því fært að taka fullan þátt í samstarfi á alþjóðlegum vettvangi. Það vill svo til að við erum í samfloti með hópi þjóða innan Atlantshafsbandalagsins, innan EES. Við eigum sérstakar vinaþjóðir sem við höfum meðal annars falið varðveislu þess parts af okkar fullveldi sem felst í vörnum landsins. Frumvarpið sem hér liggur fyrir auðveldar það samstarf og þá ekki síst þar sem þungamiðjan er, sem er hjá Sameinuðu þjóðunum í öryggisráðinu. Þetta frumvarp, sem hefur kannski fjögur ellegar fimm meginefni, er til þess fallið í fyrsta lagi að gera þátttöku okkar praktískari. Það kemur til dæmis skýrt fram í frumvarpinu sem menn hafa lengi vitað í stjórnsýslu, að til að mynda þegar við tökum þátt í ýmsum þvingunaraðgerðum sem miða að því að frysta fjármuni þeirra sem hugsanlega mundu nota þá í ólögmætum tilgangi að alþjóðasamningum tekur ákveðinn tíma að innleiða það í íslensk lög. Ég held að það hafi tekið upp í þrjá mánuði, jafnvel þótt þeir séu fágæt undantekning í íslenskum lögum sem leyfir innleiðingu á erlendum tungum þannig að ekki þarf að fara í þýðingu, en þetta er samt sem áður sá ferill. Allir vita á hinni skjótu öld tækninnar að þeir sem eiga að sæta slíku með þvingunum eru auðvitað fyrir löngu, ef þörf er á, búnir að flytja fjármagn sitt.

Það sem við ræðum og varðar þennan tiltekna þátt gerir þetta miklu skjótvirkara, styttir þennan tíma kannski niður í þrjá daga og nær hugsanlega tilgangi sínum. Ég veit samt sem áður ekki einu sinni hvort það er nóg en þetta er mjög jákvætt. Ég spurði hæstv. ráðherra: Hefur þessu einhvern tíma verið beitt svo menn viti til að koma í veg fyrir einhvers konar þátttöku í hryðjuverkastarfsemi þegar Ísland hefði hugsanlega verið notað sem þvottamaskína fyrir peninga? Hæstv. ráðherra kvaðst ekki vita það og ég veit ekki heldur til þess. Það breytir því ekki að þó að okkar lóð í þeim efnum sé örsmátt er það siðferðilega mikilvægt. Það skiptir máli að allar þjóðir taki þátt í aðgerðum af þessu tagi vegna þess að þær sýna einbeitni og styrk slíkra aðgerða gagnvart þeim sem þeim eiga að sæta. Ég tala nú ekki um ef um er að ræða aðrar þjóðir.

Ég hef áður gert að umræðuefni 3. gr. þessa frumvarps sem ég er mjög ánægður með vegna þess að þar segir algerlega skýrt að þvingunaraðgerðir sem við tökum þátt í með alþjóðastofnunum á að taka að höfðu samráði við utanríkismálanefnd, ekki eftir að þær hafa verið gerðar heldur áður. Það er orðanna hljóðan samkvæmt þessu og ekki hægt að skilja það neitt öðruvísi.

Það sem er nýmæli, held ég, í þessu frumvarpi er að talað er um samstarfsþjóðir, þ.e. aðgerðir samstarfsþjóða á ýmsum sviðum. Við höfum náttúrlega haft, ekki bara lagalegan rétt eða framkvæmdarvaldið til að hrinda í framkvæmd þvingunaraðgerðum sem öryggisráðið hefur samþykkt heldur beinlínis kvaðir, skyldu til að gera það. En mér sýnist að þetta frumvarp gefi stjórnvaldinu nýjan rétt og nýtt svigrúm til að taka fast undir með ýmiss konar aðgerðum.

Bæði hæstv. ráðherra og einhverjir sem kvöddu sér hljóðs til að veita andsvar hafa velt fyrir sér 5. gr. þar sem talað er um að samanlagður eignarhluti í fyrirtækjum sem framleiða hluti sem mætti nota í skaðlegum hernaðarlegum tilgangi megi ekki fara yfir ákveðið mark, þ.e. það verður að vera íslensk meirihlutaeign í slíku fyrirtæki. Vafalítið reisir það einhverjar skorður við misnotkun en ég var þeirrar skoðunar að fyrir væri alveg fortakslaust bann um flutning á slíkum vopnum úr landi til þjóða sem væru á tilteknum listum. Það fyrirtæki sem hæstv. ráðherra nefndi er lýsandi dæmi um fyrirtæki sem hefur stundum komið til skoðunar af þeim ástæðum. Það framleiðir búnað sem hægt er að nota til vopna. Ákveðinn partur, ekki síst hugbúnaðurinn í þessum kafbátum sem hæstv. ráðherra notaði sem dæmi, væri hugsanlega hægt að nota í skaðlegum tilgangi fyrir utan kafbátana sjálfa. Menn þurfa að skoða svona mjög vel. Það breytir ekki hinu að ég tel að við höfum engar heimildir til að meina þeim sem eru innan EES að eiga meiri hluta í slíkum fyrirtækjum. Þó að þetta reisi ákveðna múra er það líklega svo að allir þeir sem vilja versla með vopn og ná einhverjum hlutum af þessu tagi til sín og koma þeim áfram hasla sér bara völl innan EES og reyna að óperera þaðan. Auðvitað má þá segja að ákveðnir varnarmúrar séu í kringum það svæði allt en alla vega að því er Ísland varðar bendi ég á þetta.

Annað í þessu frumvarpi er prýðilegt. Ég gerði að umræðuefni áðan hvaða möguleika það gæfi til að koma í veg fyrir þá ósvinnu sem við hefðum séð á síðustu árum, að lofthelgi Íslands, eins og margra þjóða, hefur af vinföstu ríki, grónu vinaríki okkar verið gróflega misnotuð að mati bandarískra þingmanna til að brjóta alþjóðlegar skuldbindingar. Það er erfitt að koma vörnum gegn því ef um er að ræða einbeittan vilja en að minnsta kosti í nefndinni tel ég að skoða eigi hvort þetta eða eftir atvikum önnur tæki sem hæstv. ráðherra taldi, og er vísast rétt hjá honum að lægju innan vébanda innanríkisráðuneytisins, væri hægt að skrúfa fastar til að koma í veg fyrir það. Það er fjandi hart að horfa til fortíðarinnar og sjá að við höfum kannski sem þjóð verið misnotuð í þeim tilgangi í hundruð skipta.