144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

alþjóðleg öryggismál o.fl.

628. mál
[12:40]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Nei, ég ætla ekki að hafa neinar efasemdir um að þær séu aðrar en góðar. En ég er að horfa á lagatextann, ég er að horfa á það sem hér segir, með leyfi forseta:

„Ríkisstjórninni er heimilt, að höfðu samráði við utanríkismálanefnd Alþingis, sbr. lög um þingsköp Alþingis, að taka þátt í og gera þær ráðstafanir sem eru nauðsynlegar til þess að framkvæma ákvarðanir alþjóðastofnana,“ — fínt, — „ríkjahópa“, — nei, — „eða samstarfsríkja um þvingunaraðgerðir sem miða að því að viðhalda friði og öryggi og/eða tryggja virðingu fyrir mannréttindum og mannfrelsi.“

Innrásin í Írak var til að tryggja öryggi að sögn þeirra sem stóðu að henni. Og þarna finnst mér, hver sem vilji núverandi hæstv. utanríkisráðherra er, vera lagabókstafur sem er of opinn. Ég tel að ef um slíkar ákvarðanir er að ræða eða yrði að ræða þá yrðu þær að fara fyrir þingið, þær yrðu að fara fyrir þingið. Það var ekki gert á þeim tíma, því miður, ég held að margir sjái eftir því hvernig það fór og við enduðum þar á lista hinna viljugu.

Ég tel alla vega að í meðferð þingsins þurfi að hyggja vel að þessu. Þarna tel ég að við eigum frekar að ganga til þrengingar og þá með skírskotun til þess að málið fari í lýðræðislegri farveg með ákvörðun Alþingis.