144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

alþjóðleg öryggismál o.fl.

628. mál
[12:44]
Horfa

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það var engu líkara en hæstv. utanríkisráðherra væri að reyna að efna í lengri umræðu hér vegna þess að nákvæmlega ákvarðanir af þessu tagi eiga heima hjá þinginu. Þær hefði þurft að ræða í þinginu. Ég er til dæmis ekki sáttur við þær, ég er mjög ósammála þeim.

Látum það vera, við erum að fjalla um þetta tiltekna frumvarp og ég verð að segja: Hver sem vilji manna er og vilji núverandi hæstv. utanríkisráðherra og okkar einstakra þingmanna leyfi ég mér að segja sem ólöglærður lagatúlkandi en praktíserandi löggjafi og sæmilega læs maður að lagaklásúlan eins og hún stendur í frumvarpinu og skýringar sem gefnar eru opna að mínu mati á heimildir sem eru of víðar. En ég fagna því að hæstv. ráðherra lýsir því yfir að sér finnist eðlilegt að málið sé skoðað með tilliti til þeirra athugasemda í utanríkismálanefnd, þó að hann sé ekki að gefa neinar skuldbindingar fyrir sitt leyti um niðurstöðu er ágætt að við séum þá sammála um að það verði gert rækilega.