144. löggjafarþing — 86. fundur,  26. mars 2015.

ákvörðun EES-nefndarinnar nr. 269/2014 um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn.

608. mál
[12:51]
Horfa

utanríkisráðherra (Gunnar Bragi Sveinsson) (F):

Virðulegi forseti. Með þessari þingsályktunartillögu er leitað heimildar Alþingis til að staðfesta fyrir Íslands hönd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar nr. 269/2014, um breytingu á II. viðauka við EES-samninginn um tæknilegar reglugerðir, staðla, prófanir og vottun og fella inn í samninginn reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins nr. 98/2013, um markaðssetningu og notkun forefna sprengiefna.

Með gerðinni er komið á samræmdum reglum um aðgengi, markaðssetningu, umráð og notkun tiltekinna efna eða efnablandna, sem nota má til að framleiða ólögleg sprengiefni í þeim tilgangi að takmarka aðgengi almennings að þeim. Einnig er kveðið á um tilkynningarskyldu á grunsamlegum viðskiptum með slík tiltekin efni. Þetta á til dæmis við þegar tilvonandi viðskiptavinur er óskýr að því hvað varðar fyrirhugaða notkun viðkomandi efnis, virðist ekki vita hver hún er eða getur ekki útskýrt það svo trúanlegt sé, hyggst kaupa efni í óvenjulegu magni, styrkleika eða samsetningu, vill ekki gefa upp hver hann er eða hvar hann býr eða vill greiða með óvenjulegum hætti.

Innleiðing reglugerðarinnar kallar á breytingu á vopnalögum, nr. 16/1998. Gert er ráð fyrir því að innanríkisráðherra leggi fram frumvarp til breytinga á framangreindum lögum, en framlagning mun þó ekki nást á yfirstandandi löggjafarþingi.

Ekki er búist við miklum áhrifum af innleiðingu gerðarinnar hérlendis, en alla jafna þarf almenningur ekki á þeim efnum að halda sem aðgangur er takmarkaður að. Engu að síður yrði nauðsynlegt að skrá sölu þeirra efna sem tiltekin eru í gerðinni. Því er gert ráð fyrir að nokkur kostnaður verði af því að koma upp því skráningarkerfi sem um ræðir.

Þar sem umrædd ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar kallar á lagabreytingar hér á landi var hún tekin með stjórnskipulegum fyrirvara. Því er óskað eftir samþykki Alþingis fyrir þeirri breytingu á EES-samningnum sem í ákvörðuninni felst svo aflétta megi hinum stjórnskipulega fyrirvara.

Virðulegi forseti Ég legg til að að lokinni þessari umræðu verði tillögu þessari vísað til hv. utanríkismálanefndar.